Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum sem varð Evrópumeistari í byrjun desember varð fyrir valinu sem lið ársins 2021 í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna.
Þetta var tilkynnt rétt í þessu í beinni útsendingu RÚV þar sem lýst er kjöri samtakanna á íþróttamanni ársins 2021.
Hópfimleikalandsliðið fékk langflest stig í kjörinu, 125 talsins. Karlalið Víkings í knattspyrnu, sem varð Íslands- og bikarmeistari, hafnaði í öðru sæti með 63 stig og kvennalið KA/Þórs í handknattleik sem varð fjórfaldur meistari á tímabilinu 2020-21 varð í þriðja sæti með 56 stig en þessi þrjú lið skáru sig mjög úr í kosningunni.
Önnur lið sem fengu atkvæði voru kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu, karlalið Þórs úr Þorlákshöfn í körfuknattleik, karlalið Vals í handknattleik og karlalið Hamars í blaki.