Hafnar bólusetningum og dró sig úr keppni

Novak Djokovic verður ekki með í Ástralíu.
Novak Djokovic verður ekki með í Ástralíu. AFP

Novak Djokovic, fremsti tennismaður heims, hefur dregið sig úr keppni með serbneska landsliðinu sem tekur þátt í ATP-bikarnum í Ástralíu eftir áramótin.

Þar keppa 24 þjóðir um bikarinn en Djokovic og félagar í liði Serba unnu keppnina þegar hún fór fyrst fram árið 2020 en Rússar sigruðu fyrir ári.

Miklar vangaveltur hafa verið um hvort Djokovic yrði með á mótinu, sem og á Opna ástralska mótinu sem hefst 17. janúar. Skilyrði fyrir þátttöku á  báðum mótum er að keppendur séu bólusettir fyrir kórónuveirunni, eða með sérstakt leyfi frá læknismenntuðum sérfræðingum um að ekki megi bólusetja þá.

Djokovic hefur verið mótfallinn bólusetningum og ekki svarað spurningum að undanförnu um hvort búið sé að bólusetja hann fyrir kórónuveirunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert