Kjöri á íþróttamanni ársins verður lýst í kvöld í beinni útsendingu á RÚV sem hefst kl. 19.40 og er þetta sextugasta og sjötta árið í röð sem Samtök íþróttafréttamanna standa fyrir kjörinu.
Samtökin komu kjörinu fyrir árið 1956 eða á sama ári og þau voru stofnuð af þeim Atla Steinarssyni, Frímanni Helgasyni, Halli Símonarsyni og Sigurði Sigurðssyni. Þeir kusu Vilhjálm Einarsson fyrstan Íþróttamann ársins, eftir að hann hlaut silfurverðlaunin í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956. Vilhjálmur var kjörinn fimm sinnum fyrstu sex árin og hefur oftast allra hlotið þessa viðurkenningu.
Eftirtaldir íþróttamenn höfnuðu á meðal tíu efstu í kjörinu: Aron Pálmarsson handknattleiksmaður, Bjarki Már Elísson handknattleiksmaður, Júlían J.K. Jóhannsson kraftlyftingamaður, Kári Árnason knattspyrnumaður, Kolbrún Þöll Þorradóttir, Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona, Martin Hermannsson körfuknattleiksmaður, Ómar Ingi Magnússon handknattleiksmaður, Rut Arnfjörð Jónsdóttir handknattleikskona og Sveindís Jane Jónsdóttir knattspyrnukona.
Félagar í samtökum íþróttafréttamanna kusu fyrr í mánuðinum þar sem þau settu íþróttablað á blað í sæti frá 1 og upp í 10. Einnig þjálfara í sæti 1 og upp í 3 og lið í sæti 1 og upp í 3. Á Þorláksmessu var greint frá því hverjir hefðu hafnað í tíu efstu sætunum í kjörinu á íþróttamanni ársins og þremur efstu sætunum varðandi þjálfara ársins og lið ársins.
Þess misskilnings gætir stundum hjá almenningi að á Þorláksmessu séu birtar tilnefningar og að svo búnu sé kosið á milli þeirra sem náðu inn á listana sem birtir eru á Þorláksmessu. Svo er ekki því einfaldlega er verið að greina frá því hverijr höfnuðu í efstu sætunum án þess að gefa upp í hvar þau urðu í röðinni.
Þjálfararnir þrír sem höfnuðu í efstu sætunum hafa aldrei orðið fyrir valinu. Rétt er að taka fram að ekki er sama hefðin fyrir því að kjósa þjálfara ársins og lið ársins eins og íþróttamann ársins. Þjálfarar og lið eru nú heiðruð í tíunda sinn.
Arnar Gunnlaugsson knattspyrnuþjálfari, Vésteinn Hafsteinsson frjálsíþróttaþjálfari og Þórir Hergeirsson handknattleiksþjálfari eru á meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins.
Liðin þrjú sem höfnuðu í þremur efstu sætunum eru í stafrófsröð:
Kvennalandsliðið í hópfimleikum, kvennalið KA/Þórs í handknattleik og karlalið Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag