Ómar Ingi íþróttamaður ársins 2021

Ómar Ingi Magnússon tekur við verðlaunagripnum úr höndum Tómasar Þórs …
Ómar Ingi Magnússon tekur við verðlaunagripnum úr höndum Tómasar Þórs Þórðarsonar, formanns Samtaka íþróttafréttamanna. Ljósmynd/Mummi Lú

Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik og lykilmaður þýska toppliðsins Magdeburg, hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins 2021 af Samtökum íþróttafréttamanna en kjörinu var lýst í beinni útsendingu RÚV í kvöld.

Kolbrún Þöll Þorradóttir, landsliðskona í hópfimleikum úr Stjörnunni og Evrópumeistari með landsliði Íslands, varð í öðru sæti í kjörinu og Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingakona úr ÍA og þrefaldur Evrópumeistari í klassískum kraftlyftingum, hafnaði í þriðja sæti.

Ómar Ingi fékk 445 stig í efsta sætinu, Kolbrún Þöll 387 stig í öðru sæti og Kristín fékk 194 stig í þriðja sæti.

Ómar hefur átt frábært ár með liði sínu Magdeburg í þýsku 1. deildinni, bestu deild heims í handknattleik karla. Hann varð markakóngur deildarinnar 2020-21, þrátt fyrir að vera að komast aftur í gang eftir fyrri hluta tímabilsins, eftir langvarandi meiðsli, og var ennfremur framarlega í stoðsendingum. Hann skoraði 274 mörk í 38 leikjum og átti 91 stoðsendingu.

Ómar Ingi Magnússon er íþróttamaður ársins 2021.
Ómar Ingi Magnússon er íþróttamaður ársins 2021. Ljósmynd/Mummi Lú

Hann er áfram meðal markahæstu leikmanna deildarinnar í vetur, er sem stendur fjórði hæstur með 103 mörk í 16 leikjum, og jafnframt einn sá hæsti í stoðsendingum þar sem hann er þriðji með 63 slíkar.

Ómar var í lykilhlutverki með Magdeburg þegar liðið vann Evrópudeildina í vor og varð heimsmeistari félagsliða í haust með sigri á Barcelona í úrslitaleik.

Þá hefur Magdeburg verið nánast ósigrandi á yfirstandandi tímabili en liðið vann fyrstu fimmtán leiki sína í þýsku deildinni þar sem það er með örugga forystu, og er ósigrað og efst í sínum riðli í Evrópudeildinni.

Ómar lék með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í janúar 2021 og er á leið með því á Evrópumótið í Ungverjalandi í janúar 2022. Hann hefur leikið 56 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim 150 mörk.

Alls fengu 25 íþróttamenn atkvæði í kjörinu sem 29 meðlimir Samtaka íþróttafréttamanna tóku þátt í og stigin skiptust þannig:

Átta af þeim tíu sem voru í efstu sætunum í …
Átta af þeim tíu sem voru í efstu sætunum í kjörinu voru mætt í sjónvarpssal og tóku við viðurkenningum sínum. Ljósmynd/Mummi Lú

1. Ómar Ingi Magnússon, handbolti 445
2. Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikar 387
3. Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingar 194
4. Martin Hermannsson, körfubolti 150
5. Aron Pálmarsson, handbolti 143
6. Júlían J.K. Jóhannsson, kraftlyftingar 122
7. Sveindís Jane Jónsdóttir, fótbolti 114
8. Bjarki Már Elísson, handbolti 109
9. Rut Arnfjörð Jónsdóttir, handbolti 93
10. Kári Árnason, fótbolti 85
11. Elvar Már Friðriksson, körfubolti 48
12. Aldís Kara Bergsdóttir, skautar 40
13. Hlynur Andrésson, frjálsíþróttir 32
14. Ásta Kristinsdóttir, fimleikar 31
15. Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti 26
16. Helgi Laxdal Aðalgeirsson, fimleikar 24
17. Haraldur Franklín Magnús, golf 22
18. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, golf 13
19. Erna Sóley Gunnarsdóttir, frjálsíþróttir 10
20. Már Gunnarsson, sund fatlaðra 8
21. Helena Sverrisdóttir, körfubolti 7
22.-23. Alfons Sampsted, fótbolti 6
22.-23. Baldvin Þór Magnússon , frjálsíþróttir 6
24.-25. Anton Sveinn McKee, sund 1
24.-25. Róbert Ísak Jónsson, sund fatlaðra 1 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert