Þórir þjálfari ársins í fyrsta sinn

Þórir Hergeirsson gerði Norðmenn að heimsmeisturum á dögunum.
Þórir Hergeirsson gerði Norðmenn að heimsmeisturum á dögunum. AFP

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, var kjörinn þjálfari ársins 2021 af Samtökum íþróttafréttamanna.

Þetta var tilkynnt rétt í þessu í beinni útsendingu RÚV þar sem lýst er kjöri samtakanna á íþróttamanni ársins 2021.

Noregur varð heimsmeistari undir stjórn Þóris á dögunum, fékk brons á Ólympíuleikunum og varð Evrópumeistari í árslok 2020.

Þórir hlaut 131 stig. Vésteinn Hafsteinsson, þjálfari gull- og silfurverðlaunahafanna í kringlukasti á ÓL í Tókýó, varð annar með 68 stig og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu karla, varð þriðji með 37 stig.

Aðrir þjálfarar sem fengu atkvæði voru Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handknattleik, Björn Björnsson og Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir, yfirþjálfarar Íslands í hópfimleikum, og Lárus Jónsson, þjálfari karlaliðs Þórs frá Þorlákshöfn í körfuknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert