Keppni á heimsmeistaramóti karla 20 ára og yngri í íshokkí sem staðið hefur yfir í Edmonton í Kanada síðustu daga hefur verið hætt vegna kórónuveirusmita í keppnisliðunum.
Eftir að fresta hafði þurft tveimur leikjum vegna smita, Sviss - Bandaríkin og Finnland - Tékkland, og ljóst varð að fresta þurfti þeim þriðja milli Rússa og Slóvaka vegna smita í rússneska liðinu ákvað Alþjóða íshokkísambandið að keppni skyldi hætt. Mótinu átti að ljúka með úrslitaleik 5. janúar.
Forseti sambandsins, Luc Tardiff, sagði að stefnt væri að því að halda mótin síðar.
Útbreiðsla veirunnar hefur líka sett strik í reikning íslensks íshokkífólks því heimsmeistaramótum U20 ára drengja og U18 ára stúlkna sem íslensku liðin áttu að taka þátt í á fyrstu vikum ársins 2022 hefur verið aflýst.