Allir vita um aðstæðurnar í Katar

Frá Al-Bayt leikvanginum í Katar.
Frá Al-Bayt leikvanginum í Katar. AFP

Íþróttir eru í stjórnmálum. Um það þarf ekki að deila á nýju ári þegar Vetrarólympíuleikarnir fara fram í Peking og Heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu í Katar. Ekki þarf nema að opna dagblöð um þessar mundir. Frankfurter Allgemeine Zeitung, Guardian, Polish Gazeta Wyborcza og fleiri gæðamiðlar, sem eru með víðtæka umfjöllun um heimsmálin, eru með umfjöllun á íþróttasíðunum um sniðgöngu Bandaríkjamanna, Breta og annarra á Ólympíuleikunum, þögnina hjá Alþjóða ólympíunefndinni og réttindi verkafólks í Katar.

Ein fréttin hefur vakið forvitni um heim allan. Áhyggjur af velferð Peng Shuai, sem eitt sinn var efst á heimslistanum í tvíliðaleik, hefur Tennissamband kvenna WTA ákveðið að aflýsa öllum mótum í Kína. Á heildina litið koma 30% af tekjum WTA frá Kína og verðlaunafé á lokamótinu í Shenzhen er í kringum 12 milljónir evra, meira en á nokkru öðru móti hjá konunum í tennisíþróttinni. En leikmennirnir hafa nú tekið afstöðu.

Hefð er fyrir því hjá tenniskonum að taka afstöðu en saga íþróttarinnar geymir sterkar persónur. Billie Jean King, sem vann mörg risamót, beitti sér fyrir jafnri aðstöðu og sömu launum fyrir kynin. Síðar beitti Martina Navratilova, margfaldur sigurvegari á Wimbledon, sér fyrir réttindum samkynhneigðra. Hið svokallaða veikara kyn á sviðið þegar barátta er háð. Konurnar í íþróttinni hafa gert alþjóða sambandið að sjálfstæðri stofnun.

Peng Shuai.
Peng Shuai. AFP

Afstaða WTA sendir þau skilaboð að þú getir sagt nei í íþróttum. Viðræður kalla á samskipti og viðleitni til að nálgast þá sem eru ósammála, en stundum þarf að draga sig úr keppni. Ríki þar sem mannréttindi eru ekki virt eins og víðast hvar í heiminum fjárfesta einnig í knattspyrnunni. Þessi ríki eru hluti af íþróttahreyfingunni í heiminum og bjóða svo mikið fjármagn að mörgum reynist erfitt að fúlsa við því.

Knattspyrnumenn þurfa að láta í sér heyra

Í umfjölluninni mátti einnig sjá áhugaverðar myndir frá leikjum í Arabíu bikarnum og átta nýjum leikvöngum. Í þessu landi þar sem búa 2,7 milljónir manna eða helmingi færri en í Slóveníu, má nú finna átta af nútímalegustu, dýrustu og fallegustu leikvöngum í heiminum. Að keyra á milli þeirra tekur innan við klukkutíma. Umfjöllun ZDF var forsmekkurinn að þeirri klemmu sem fylgir HM á næsta ári. Fólk veit um aðstæðurnar í Katar en mun um leið hafa ánægju af því að fylgjast með bestu liðunum og glæsilegri keppni.

Þessi klemma er fyrirsjáanleg. Árið 1978 fór HM fram í Argentínu sem var undir stjórn hersins. Þá höfðu margir leikmanna fá svör við spurningum um mannréttindi. Í dag geta viðhorf leikmanna ekki verið jafn sakleysisleg. Þökk sem umfangsmiklum fréttaflutningi eru allir betur upplýstir en áður um það sem gengur á í öðrum heimsálfum. Auk þess hafa flestir knattspyrnumenn meiri tíma til að takast á við slík málefni. Opinberar persónur eins og þeir eiga auk þess að fylgjast með því sem gerist í heiminum. Nú þegar heimurinn hefur minnkað, vita allir hvernig aðstæður eru í Katar.

 Einhverjir knattspyrnumenn hafa tekið af skarið og kallað eftir því að mannréttindi séu virt. „Ég tel að málum sem þessum þurfi að veita meiri athygli þegar verkum verður úthlutað í framtíðinni,“ segir þýski landsliðsmaðurinn Leon Goretzka. „Við vöknuðum of seint. Ég vaknaði of seint,“ skrifar Tim Sparv í opnu bréfi. Í bréfinu kallar fyrirliði Finna eftir því að leikmenn, fjölmiðlar og stuðningsmenn ræði um aðstæður verkafólks í Katar.

Tim Sparv.
Tim Sparv. AFP

Á minna sviði er breyttur hugsunarháttur farinn að bera ávöxt. Þegar svartur leikmaður varð fyrir kynþáttaníð af hendi áhorfanda í leik MSV Duisburg og VfL Osnabrück í Þýskalandi í desember, þá voru það liðin sjálf sem ákváðu að stöðva leikinn. Allir leikmennirnir samþykktu fljótt að þeir vildu búa til fordæmi. Leikmenn hjá báðum liðum, dómararnir, sambandið og stuðningsmenn beggja liða.

Einstaklingurinn er ekki valdalaus. Fólk getur gert gæfumuninn. Þú byrjar smátt en það getur orðið stórt á endanum. Greta Thunberg var fimmtán ára gömul þegar hún stóð ein úti á götu í Stokkhólmi til að vekja athygli á loftslagsbreytingum. Margir slógust í hópinn og síðan þá hefur Fridays for Future komið umhverfismálum á dagskrá á alþjóða vettvangi. Þetta breytti stjórnmálunum. Og knattspyrnunni líka svo dæmi sé tekið. EM karla í Þýskalandi árið 2024 verður ekki álitin góð keppni nema umhverfisþættirnir verði teknir með í reikninginn. Undirbúningurinn vegna þessa er hafinn.

Heppinn að hafa fæðst í lýðræðisríki

Ég get talist heppinn að hafa fæðst í lýðræðisríki. Ekki er langt síðan að aðstæður voru aðrar í mínu heimalandi. Fyrir þremur áratugum síðan var Þýskaland tvö aðskilin ríki og í austurhlutanum var alræðisstjórn. Aðrar þjóðir í Evrópu gengu einnig í gegnum breytingar. EM árið 1964 fór fram í fasistaríki og spænska liðið vann á heimavelli fyrir framan Franco. Hann var enn við völd þegar þegar Spánverjum var úthlutað heimsmeistarakeppni karla 1982. Þegar hún fór fram var Spánn orðið lýðræðisríki.

Stórir íþróttaviðburðir, sérstaklega í knattspyrnunni, vekja mikla athygli. Núorðið er ætlast til þess að allir sem taka þátt í EM og HM hafi skoðanir á vinnuumhverfi og stöðu mannréttinda í Katar og Peking. Á EM 2024 í Þýskalandi munu Evrópubúar einnig fara yfir hvernig við viljum búa og starfa saman.

Philipp Lahm skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið og mbl.is.
Philipp Lahm skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Ljósmynd/Philippe Arlt

Phil­ipp Lahm var fyr­irliði þýska landsliðsins í knatt­spyrnu þegar það varð heims­meist­ari árið 2014 og lék með Bayern München í fimmtán ár. Hann er móts­stjóri Evr­ópu­móts karla sem fram fer í Þýskalandi árið 2024. Pistl­ar hans, „Mitt sjón­ar­horn“, birt­ast reglu­lega í Morg­un­blaðinu og/​eða mbl.is. Þeir eru skrifaðir í sam­vinnu við Oli­ver Fritsch, íþrótta­rit­stjóra þýska net­miðils­ins Zeit On­line, og birt­ast í fjöl­miðlum nokk­urra Evr­ópu­landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert