Eva María Baldursdóttir hástökkvari og Hergeir Grímsson handknattleiksmaður voru í gærkvöld útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Ungmennafélags Selfoss fyrir árið 2021.
Eva, sem er aðeins átján ára gömul, varð Íslandsmeistari kvenna í hástökki utanhúss og sigraði einnig á Íslandsmótinu í sínum aldursflokki, bæði innan og utanhúss. Þá sigraði hún í kvennaflokki á Reykjavíkurleikunum, RIG, og stökk hæst íslenskra kvenna á árinu 2021, þegar hún fór yfir 1,78 metra. Eva er í landsliði Íslands í frjálsíþróttum og í stórmótahópi Frjálsíþróttasambands Íslands.
Hergeir er fyrirliði úrvalsdeildarliðs Selfyssinga og hefur skipað sér í hóp bestu leikmanna deildarinnar í vörn og sókn. Hann var markahæsti leikmaður Selfyssinga á síðasta tímabili og var valinn sóknarmaður ársins á lokahófi deildarinnar.