Verðlaunum skilað 69 árum síðar

Jim Thorpe.
Jim Thorpe. Ljósmynd/Penn Museum

Um aldamótin síðustu stóð bandaríska þingið fyrir kjöri á íþróttafólki 20. aldarinnar. Það gerði einnig sjónvarpsþátturinn Wide World of Sports sem var á dagskrá í Bandaríkjunum í tæpa fjóra áratugi frá 1961-1998. Í efsta sæti hjá körlunum hafnaði ekki Muhammad Ali eða Michael Jordan. Ekki heldur Jesse Owens eða Babe Ruth. Ekki heldur Wayne Gretzky eða Jack Nicklaus. Í báðum tilfellum féll heiðurinn Jim Thorpe í skaut sem þá hafði verið látinn í fjörutíu og sjö ár. Lengi vel hafði hann ekki verið viðurkenndur ríkisborgari í Bandaríkjunum vegna kynþáttar.

Indíánar höfðu takmörkuð réttindi í Bandaríkjunum þegar Jim Thorpe óx úr grasi en ekki gefst tími til að fara ítarlega yfir það í grein sem þessari. Börn af indíánaættum gengu í sérskóla en Jim Thorpe fann sig ekki sérlega vel í náminu. Hann fór þó í menntaskóla í Carlisle í Pennsylvaníu og reyndist það örlagarík ákvörðun því þar var voru íþróttahæfileikar hans uppgötvaðir.

Jim Thorpe fæddist í maí árið 1887. Ekki liggur fyrir hvort hann hafi komið í heiminn 22. maí eða 28. maí en fæðingarvottorð hefur aldrei fundist. Thorpe var af indíánaættum og bjó ættbálkurinn þar sem nú er Oklahoma í Bandaríkjunum. Foreldrarnir voru bæði af blönduðum kynþáttum. Faðirinn indíáni í móðurættina og írskur í föðurætt. Móðir Jims Thorpes var frönsk í föðurættina og indíáni í móðurættina. Foreldrarnir voru bæði kaþólskrar trúar og Jim Thorpe var einnig kaþólikki.

Konungurinn hreifst með

Þegar Thorpe hóf að æfa íþróttir kerfisbundið lét árangurinn ekki á sér standa. Hann var framúrskarandi leikmaður í amerískum fótbolta og átti eftir að verða atvinnumaður í greininni. Hann þótti svo fjölhæfur íþróttamaður að hann var settur í tugþrautina en eins og íþróttaáhugafólk þekkir eru það einungis afburða íþróttamenn sem ná almennilegum tökum á tugþrautinni.

Thorpe sló í gegn svo um munaði á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi árið 1912. Hann varð ólympíumeistari í tugþraut með fádæma yfirburðum. Fékk 8.412 stig og sigraði með tæplega 700 stiga mun. Hér er rétt að taka fram að tugþraut var nýlega orðin ólympíugrein og var ekki alls staðar stunduð af kappi en hefð hafði hins vegar skapast fyrir greininni í Bandaríkjunum.  Fram að þessu var ef til vill meiri hefð fyrir fimmtarþrautinni sem samanstóð af fimm greinum sem einnig eru í tugþrautinni: langstökki, spjótkasti, 200 metra hlaupi, kringlukasti og 1.500 metra hlaupi. Thorpe lét sig ekki muna um að keppa einnig í fimmtarþrautinni og varð þar einnig ólympíumeistari.

Á leikunum hljóp Thorpe 100 metrana á 11,2 sekúndum, stökk 1,87 metra í hástökki og 6,79 metra í langstökki. Hér er ágætt að hafa í huga að um þrautarmann er að ræða sem ekki er sérhæfður í þessum greinum og það fyrir meira en öld.

Jim Thorpe í hástökki. Hann fór yfir 1,87 metra í …
Jim Thorpe í hástökki. Hann fór yfir 1,87 metra í tugþrautinni á leikunum í Stokkhólmi. Ljósmynd/Olympic Musuem

Thorpe vakti mikla athygli á leikunum sem skiljanlegt er. Sænskir íþróttaáhugamen sem sóttu leikana töluðu um að eftirsóknarvert væri að fara og fylgjast með „indíánanum“. Gústaf V Svíakonungur sótti leikana og var svo hrifinn af tilburðum Thorpes að hann sagði við hann: „Þú ert besti íþróttamaður í heimi, herra minn.“

Sinnti andlegri þjálfun um borð í skipinu

Siglingin frá Norður-Ameríku til Svíþjóðar tók auðvitað sinn tíma hjá bandarísku keppendunum. Margar frásagnir eru til af því hversu mikið Thorpe æfði um borð og mun það hafa haft góð áhrif á aðra keppendur. Á leiðinni sinnti Thorpe andlegri þjálfun og vakti þá töluverða athygli annarra um borð. Ef til vill furðu. Thorpe sagðist reyna að sjá fyrir sér hvernig hann myndi útfæra greinarnar. Slíkt er allt saman þekkt hjá afreksfólki í íþróttum í dag en Thorpe hefur líklega verið með þeim fyrstu sem sinntu andlegri þjálfun með þessum hætti.

Þegar heim var komið tóku við fagnaðarlæti í New York eins og tíðkast hefur í gegnum áratugina hjá Bandaríkjamönnum. Keyrt var með Thorpe í gegnum mannhaf á Manhattan þar sem hann var hylltur fyrir afrek sín í Svíþjóð en í millitíðinni hafði bandaríski hópurinn keppt víðar í Evrópu áður en haldið var heim á leið.

Í þessu öllu saman felast miklar mótsagnir því kynþáttafordómar voru mjög miklir á þessum tíma. Fólk kepptist við að hylla íþróttamann sem bjó nánast ekki yfir neinum réttindum, sem í dag þættu sjálfsögð, vegna kynþáttar síns. William H. Taft Bandaríkjaforseti nefndi Thorpe sérstaklega í ræðu eftir Ólympíuleikana og kallaði hann framúrskarandi Bandaríkjamann. Það var hins vegar ekki fyrr en tólf árum síðar sem indíánar fengu ríkisborgararétt í Bandaríkjunum.

Sviptur verðlaunum 

Eftir sannkallaða Bjarmalandsför til Evrópu kom hins vegar babb í bátinn hjá Thorpe. Árið eftir var hann sviptur gullverðlaununum frá Ólympíuleikunum. Strangar reglur voru um að einungis áhugamenn væru gjaldgengir á Ólympíuleikunum. Upp úr krafsinu kom að Thorpe hafði spilað tvö tímabil sem hálfatvinnumaður í hafnabolta og var um það fjallað í bandarískum blöðum. Hafði fengið tvo dollara greidda fyrir hvern leik.

Thorpe hafði enga þekkingu á reglunum sem giltu um Ólympíuleikana og þótti trúverðugur í því sambandi. En almennt er talið að þeir sem fóru fyrir bandarísku ólympíunefndinni og bandaríska frjálsíþróttasambandinu hafi átt að vita að þessi staða gæti komið upp. Ákvörðunin var umdeild og Svíinn Hugo Wieslander, sem fengið hafði silfurverðlaunin í tugþrautinni, neitaði að taka við gullverðlaunum.

Jim Thorpe veitir viðurkenningu viðtöku á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi árið …
Jim Thorpe veitir viðurkenningu viðtöku á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi árið 1912. Ljósmynd/Alþjóða ólympíunefndin

Reglur eru reglur og reglur alþjóðaólympíunefndarinnar voru brotnar þótt ekki hafi falist í því ásetningur hjá Thorpe. Tæpum þremur áratugum eftir að Jim Thorpe lést kom hins vegar krókur á móti bragði. Bandaríkjamenn áttuðu sig á því að Thorpe hefði verið sviptur verðlaunum sínum eftir að þrjátíu daga frestur til að gera slíkt rann út. Þar með hafi sú atlaga ekki verið innan reglnanna.

Var hart sótt að alþjóðaólympíunefndinni vegna þessa snemma á níunda áratugnum. Hitann og þungann af baráttunni báru hjónin Robert Wheeler rithöfundur og Florence Ridlon. Þau unnu fyrsta slaginn gegn bandarísku ólympíunefndinni og í framhaldinu nutu þau stuðnings Bandaríkjaþings til að taka slaginn gegn alþjóðaólympíunefndinni. Framkvæmdastjórn nefndarinnar IOC tilkynnti síðla árs 1982 að Thorpe myndi endurheimta gullverðlaunin. Eða afkomendur hans öllu heldur hvað málminn sjálfan varðaði.

Atvinnumaður í tveimur greinum

Jim Thorpe var slíkum kostum búinn að hann gat staðið sig í flestum íþróttum sem hann reyndi fyrir sér í. Hann prófaði margar greinar á menntaskólaárunum ef ekki flestar sem i boði voru. Eftir að hafa unnið til verðlauna á Ólympíuleikunum lék hann sem atvinnumaður bæði í hafnabolta og í ameríska fótboltanum. Í báðum tilfellum gat hann leyst fleiri en eina stöðu á vellinum. 

Thorpe var greinilega enginn meðalmaður í ameríska fótboltanum. Á 50 ára afmæli NFL-deildarinnar var hann til að mynda valinn í úrvalslið fyrstu fimmtíu áranna. Lék hann meðal annars með New York Giants en einnig Cleveland, Chicago og Tampa. Thorpe var formaður samtaka félaganna í deildinni sem síðar fóru að kalla sig National Football League eða NFL.

Í hafnaboltanum lék hann einnig með New York Giants en liðið færði sig síðar til San Francisco. Í hafnaboltanum lék hann auk þess sem atvinnumaður í Cincinnati og Boston.

Undraverðir hæfileikar uppgötvaðir fyrir hálfgerða tilviljun

Jim Thorpe ólst upp við aðstæður sem ekki þykja vera allra hentugastar til íþróttaiðkunar í nútímanum. Ekkert rafmagn, engir vegir til að auðvelda ferðalög né aðgangur að fjölmiðlum. Áhrif iðnbyltingarinnar voru ekki komin fram og alþjóðavæðingin varð ekki til fyrr en ferðalög og flutningar á milli heimsálfa urðu auðveldari og tíðari. Við slíkar aðstæður eru ekki íþróttamannvirki, afreksmiðsstöðvar eða aðgangur að sjúkraþjálfun. Það segir sig sjálft.

Uppvöxturinn var ekki auðveldur og líf Thorpes var á heildina litið ekki auðvelt. Áður en hann náði unglingsaldri var hann orðinn munaðarlaus. Foreldrarnir voru bæði látin úr veikindum og tvíburabróðir Jims lést þegar þeir voru á barnsaldri. Margir hafa kynnt sér vel ævi og feril Thorpes en eiga erfitt með að skýra hvers vegna hann varð svo óhemju mikill íþróttamaður. Sumir leita skýringa í menningunni sem hann er sprottinn úr. Aðrir benda á að margir af bestu íþróttamönnum heims ólust upp við erfðar aðstæður og þurftu ávallt að hafa verulega fyrir hlutunum.

Jim Thorpe var einstakur íþróttamaður og atvinnumaður í tveimur greinum.
Jim Thorpe var einstakur íþróttamaður og atvinnumaður í tveimur greinum.

Stundum er talað um undrabörn. Ekki bara í íþróttum heldur einnig í hugaríþróttum eða listum. Ef til vill er of oft gripið til þess að lýsa einhverjum sem undrabarni. Miðað við frásagnir af Thorpe þá virðist hann hafa verið undrabarn þegar íþróttir voru annars vegar. Maður sem æfði ekki íþróttir skipulega fyrr en nánast á fullorðinsaldri en hljóp hraðar og hoppaði hærra en Cristiano Ronaldo. Í það minnsta má nota sterk lýsingarorð um slíkan mann. 

Í ævisögu hans kemur fram að Thorpe hafi verið uppgötvaður í frjálsum þegar hann gekk fram hjá frjálsíþróttaæfingu í Carlisle um tvítugt. Hann hafði þá leikið amerískan fótbolta með mjög góðum árangri. Thorpe fylgdist með þegar háskólanemarnir reyndu við 180 cm í hástökki en gekk erfiðlega. Thorpe ákvað að reyna sig og vippaði sér yfir en var þó í hefðbundnum fötum og venjulega skóaður. Eftir þessu var tekið og fékk hann í framhaldinu handleiðslu hjá þekktum frjálsíþróttaþjálfara.

Önnur kvikmynd á leiðinni?

Nafni Jims Thorpes hefur verið haldið vel á loft, til að mynda í öllum þeim kosningum sem fram hafa farið um helstu íþróttamenn á 20. öldinni. Þótt kynþáttafordómar hafi litað lífshlaupið var Thorpe þjóðþekktur og vinsæll fyrir íþróttaafrekin á meðan hann lifði. Því miður gátu atvinnumenn í íþróttum ekki búið sér áhyggjulaust ævikvöld í þá daga eins og þeir geta auðveldlega gert í dag. Þegar Thorpe lést árið 1953 reyndist erfitt að fjármagna jarðarförina.

Angelina Jolie hefur greinilega áhuga á lífshlaupi Jims Thorpe.
Angelina Jolie hefur greinilega áhuga á lífshlaupi Jims Thorpe. AFP

Árið 1951 var frumsýnd kvikmynd um Jim Thorpe með sjálfum Burt Lancaster. Warner Bros framleiddi myndina og heitir hún Jim Thorpe – All American. Nú mun vera önnur mynd á framleiðslustigi um Jim Thorpe sem hefur fengið nafnið Bright Path: The Jim Thorpe Story. Framleiðandi er Angelina Jolie. Nafn myndarinnar vísar til þess að Bright Path er indíánanafnið sem Thorpe var gefið í bernsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka