Áhorfendur féllu úr stúku

Jalen Hurts fagnar sigrinum í nótt með einum af stuðningsmönnum …
Jalen Hurts fagnar sigrinum í nótt með einum af stuðningsmönnum Philadelphia Eagles sem féll úr áhorfendastúkunni á FedEx-vellinum. AFP

Nokkrir áhorfendur á leik Washington Football Team og Philadelphia Eagles í NFL-deildinni í amerískum fótbolta í nótt féllu til jarðar úr áhorfendastúkunni á FedEx-velli Washington þegar handrið meðfram leikmannagöngum gestaliðsins lét undan þunga og hrundi.

Svo virðist sem engan hafi sakað þrátt fyrir þetta ógnvekjandi slys.

„Eftir því sem við komumst næst var öllum sem áttu hlut að máli boðin læknisaðstoð og yfirgáfu leikvanginn af sjálfsdáðum. Við erum mjög ánægð með að enginn virðist hafa meiðst alvarlega.

Öryggi stuðningsfólks okkar og gesta er okkur gífurlega mikilvægt og við erum að skoða nánar hvað gerðist,” sagði í tilkynningu frá Washington-liðinu.

Í frétt ESPN um málið er vitnað til eins ónefnds forsvarsmanns Washington sem sagði að svæðið þar sem slysið átti sér stað sé svæði fyrir fatlaða þar sem engin sæti er að finna. Svæðið sé hannað sem stæði fyrir sex manns í hjólastól og sex manns til viðbótar sem fylgi þeim.

Handriðið sé ekki með burðarþol og því ekki hannað til þess að þola fleiri hundruð kílógramma þrýsting frá fólki. Samkvæmt forsvarsmanninum tróð fjöldi stuðningsmanna gestaliðsins Philadelphia sér inn á svæðið að leik loknum með það fyrir augum að gefa Jalen Hurts, leikmanni liðsins, háa fimmu eftir að Philadelphia vann 20:16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert