Ólýsanlegt augnablik

Kolbrún Þöll Þorradóttir hafnaði í öðru sæti í kjörinu á …
Kolbrún Þöll Þorradóttir hafnaði í öðru sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins. Ljósmynd/Mummi Lú

Kolbrún Þöll Þorradóttir reiknar með því að keppa með íslenska kvennalandsliðinu í hópfimleikum á Evrópumótinu 2022 sem fram fer í Lúxemborg í september.

Kolbrún Þöll, sem er 22 ára gömul, var lykilmaður í íslenska liðinu sem varð Evrópumeistari í Guimares í Portúgal í desember á síðasta ári og var meðal annars valin í úrvalslið mótsins ásamt þeim Ástu Kristinsdóttur og Helga Laxdal Aðalgeirssyni sem fór fyrir karlalandsliði Íslands sem endaði í öðru sæti á mótinu.

„Öll vinnan sem maður hefur lagt á sig undanfarin ár skilað sér loksins í Portúgal,“ sagði Kolbrún Þöll í samtali við Morgunblaðið.

„Tilfinningin var því stórkostleg þegar það varð ljóst að við værum Evrópumeistarar. Mótið í heild sinni var mikill tilfinningarússíbana enda meiddist fyrirliðinn okkar Andrea Sif Pétursdóttir illa þegar hún sleit hásin og það var erfitt. Sigurinn stóð líka tæpt þar sem við enduðum með jafnmörg stig og Svíþjóð og við vinnum mótið vegna þess að við unnum á fleiri áhöldum en sænska liðið.

Á meðan við vorum að bíða eftir lokaeinkunninni þá hljóp ég til Andreu Sifjar og faðmaði hana vel og innilega. Svo hópuðumst við allar saman við hliðina á hinum liðunum og satt best að segja þá var ég sjálf búin að undirbúa mig fyrir það að við yrðum í öðru sæti þar sem mér fannst við ekki hafa staðið okkur nægilega vel í æfingum á dýnu. Ég var strax farin að hugsa um næsta mót einhvern veginn en svo leit ég á töfluna og ég trúði þessu ekki fyrst.

Við öskruðum úr okkur líftóruna þegar það varð ljóst að við hefðum unnið og ég gæti alveg farið að gráta þegar ég rifja þetta upp því þetta var svo sætt. Við erum búnar að vera vinna fyrir þessu augnabliki í níu til tíu ár. Þetta er stærsta mótið okkar og stærsti sigurinn sem við munum vinna þannig að þetta var algjörlega ólýsanlegt augnablik,“ sagði Kolbrún Þöll.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert