Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur hótað að senda tenniskappann Novak Djokovic heim með næstu flugvél ef hann getur ekki sýnt fram á fullnægjandi læknisvottorð við komuna til landsins. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu.
Í gær bárust fréttir þess efnis að Djokovic, sem er í efsta sæti heimslistans, hefði fengið undanþágu frá áströlskum yfirvöldum til þess að taka þátt í Opna ástralska meistaramótinu sem fram fer í Melbourne og hefst í næstu viku.
Serbinn hefur ekki viljað gefa það upp hvort hann sé bólusettur fyrir kórónuveirunni en þeir sem eru ekki bólusettir hafa hingað til ekki fengið að ferðast til Ástralíu.
„Allir þeir sem vilja koma til Ástralíu þurfa að fara eftir settum reglum á landamærunum,“ sagði Morrison.
„Ef hann er ekki bólusettur fyrir veirunni þarf hann að sýna fram á læknisvottorð sem staðfestir að hann megi ekki þiggja bóluefni af læknisfræðilegum ástæðum.
Við þurfum að bíða og sjá hvaða gögn hann getur sýnt á landamærunum og ef þau standast ekki lög og reglur verður hann sendur heim með næstu flugvél,“ bætti Morrison við.
Djokovic á titil að verja á mótinu en hann hefur unnið Opna ástralska meistaramótið þrjú ár í röð.