„Ég held að mamma hafi fundið einhvern brettapakka fyrir mig á Bland.is á sínum tíma,“ sagði Ylfa Rúnarsdóttir, atvinnukona á snjóbretti, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Ylfa, sem er 27 ára gömul, byrjaði á snjóbretti þegar hún var 13 ára gömul en þremur árum síðar flutti hún til Svíþjóðar.
Hún gerði samning við snjóbrettaframleiðandann Burton á síðasta ári og er í dag þekkt stærð í snjóbrettaheiminum kvennamegin.
„Foreldar mínir hafa alla tíð staðið mjög þétt við bakið á mér og ég byrjaði fyrst að renna mér í Árbænum og í kringum húsið heima,“ sagði Ylfa.
„Ég tók rútuna oft og tíðum upp í Bláfjöll á sínum tíma og svo húkkaði ég mér líka far upp í Bláfjöll en ég veit ekki alveg hvort mamma og pabbi hafi verið meðvituð um það,“ sagði Ylfa.
Viðtalið við Ylfu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.