„Enginn af þeim sem ég leit upp til, þegar ég var að byrja á bretti, notaði hjálm,“ sagði Ylfa Rúnarsdóttir, atvinnukona á snjóbretti, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Ylfa, sem er 27 ára gömul, skrifaði á síðasta ári undir samning við snjóbrettarisann Burton sem er þekktasta nafnið í snjóbrettaheiminum í dag.
Eftir að hafa orðið Svíþjóðarmeistari í bæði brekkufimi og hálfpípu hætti hún að keppa eftir menntaskólaárin og fór að einbeita sér að myndbandsgerð þar sem öryggisbúnaður eins og hjálmar eru ekki mikið notaðir.
„Það er ekki langt síðan fólk fékk ekki birtar myndir af sér í snjóbrettatímaritum ef það var með hjálm,“ sagði Ylfa.
„Það var einfaldlega ekki töff að vera með hjálm en þetta er sem betur fer að breytast,“ sagði Ylfa.
Viðtalið við Ylfu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.