Djokovic vann málið í Melbourne

Novak Djokovic getur að óbreyttu keppt á Opna ástralska mótinu.
Novak Djokovic getur að óbreyttu keppt á Opna ástralska mótinu. AFP

Dómstóll í Melbourne úrskurðaði í morgun að serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic mætti dvelja í Ástralíu og þar með getur hann tekið þátt í Opna ástralska meistaramótinu sem hefst næsta mánudag.

Úrskurður dómarans var á þá leið að ekki hefði verið rétt að því staðið hjá landamæravörðum að ógilda vegabréfsáritunina hjá Djokovic. Serbinn taldi sig hafa fengið heimild til þess að koma til Ástralíu og keppa á mótinu án þess að fyrir lægi staðfesting á hvort hann væri bólusettur fyrir kórónuveirunni.

Haft er eftir lögfræðingi áströlsku ríkisstjórnarinnar að innflytjendaráðherra landsins gæti gripið til þess ráðs að ógilda áritunina á nýjan leik. Hann hafi völd til þess og ef farið verði þá leið gæti Djokovic verið óheimilt að koma til Ástralíu næstu þrjú árin.

Í úrskurði dómstólsins segir m.a. að ástralska ríkisstjórnin þurfi að greiða kostnaðinn af því að halda Djokovic í einangrun eftir að honum var ekki hleypt inn í landið. Samkvæmt úrskurðinum bar yfirvöldum að sleppa honum innan 30 mínútna og afhenda honum umsvifalaust vegabréf sitt og persónulegar eigur.

Mikill fögnuður braust út á meðal um eitt hundrað Ástrala af serbnesku bergi brotinna sem höfðu komið sér fyrir framan við hús dómstólsins á meðan málið var tekið fyrir.

Fyrir réttinum svaraði Djokovic í fyrsta skipti spurningu um hvort hann væri bólusettur fyrir kórónuveirunni. „Ég er ekki bólusettur,“ svaraði hann beinni spurningu þar að lútandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert