ATP, samtökin sem skipuleggja stærstu tennismót heims, segja í yfirlýsingu að vandræðin sem hafa fylgt umsókn Serbans Novaks Djokovic um vegabréfsáritun í Ástralíu svo honum yrði unnt að taka þátt á Opna ástralska mótinu sem hefst í næstu viku hafi verið skaðleg fyrir hann sjálfan og íþróttina.
Djokovic fékk í gær leyfi til að dvelja í landinu eftir að dómari ógilti þá ákvörðun að taka ekki vegabréfsáritun hans gilda þegar Serbinn kom til Melbourne síðasta fimmtudag. Hann sat í einangrun í fjóra sólarhringa á sóttvarnahóteli í borginni þar til mál hans var tekið fyrir í gær.
„Vandræðin sem snúa að komu leikmanna til Ástralíu undanfarna daga hafa varpað ljósi á nauðsyn þess að koma á fót betri skilningi, samskiptum og beitingu á reglum.
Þegar Novak Djokovic ferðaðist til Melbourne er það alveg ljóst að hann stóð í þeirri trú að honum hefði verið veitt sú læknisfræðilega undanþága sem þörf var á til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem koma til landsins,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu ATP.
Samtökin hvöttu í yfirlýsingunni alla tennisleikara til þess að þiggja bólusetningu við kórónuveirunni, en Djokovic hefur þráfaldlega hafnað því að þiggja hana.
Samkvæmt reglum í Ástralíu verða þeir sem koma til landsins að vera bólusettir og var Djokovic neitað um landvistarleyfi þar sem hvergi kom fram í pappírunum sem hann hafði undir höndum við komuna til Melbourne hvort hann væri bólusettur eður ei.
Úrskurður dómarans fyrir réttinum í gær var þó á þá leið að ekki hefði verið rétt að því staðið hjá landamæravörðum að ógilda vegabréfsáritunina hjá Djokovic. Eftir sem áður hafa áströlsk yfirvöld rétt til að ógilda áritun hans og senda Djokovic úr landi.
„Atburðirnir sem leiddu til réttarhaldanna á mánudag hafa verið skaðlegir að öllu leyti, þar á meðal hvað velferð og undirbúning Novaks fyrir Opna ástralska mótið varðar,“ sagði einnig í yfirlýsingu ATP.