Skólaverkefnið varð að ofurhjólakeppni

Rannsókn Halldóru í ferðamálafræði snerist um upplifun hjólaferðamanna á Vestfjörðum. …
Rannsókn Halldóru í ferðamálafræði snerist um upplifun hjólaferðamanna á Vestfjörðum. Hún segir upplifun allra hafa verið stórkostlega og hugmyndin að Cycling Westfjords hafi kviknað í kjölfarið. Ljósmynd/Cycling Westfjords

Í sum­ar fer í fyrsta sinn fram ný fjöl­dægra of­ur­hjóla­keppni á Vest­fjörðum, en um er að ræða keppni sem skipt­ist í fjór­ar dag­leiðir yfir fimm daga. Sam­tals verða hjólaðir 930 km og verður hækk­un á við einn og hálf­an til tvo Hvanna­dals­hnúka á hverj­um degi. Keppn­in er hluti af stærra hjóla­verk­efni á Vest­fjörðum sem set­ur upp þrjár hjóla­áskor­an­ir fyr­ir ferðamenn eða áhuga­sama Íslend­inga sem vilja reyna sig við firðina og heiðarn­ar fyr­ir vest­an.

Hall­dóra Björk Norðdahl rek­ur versl­un á Ísaf­irði en var ný­lega í námi í ferðamála­fræði. Rann­sókn henn­ar þar var um upp­lif­un reiðhjóla­ferðamanna á Vest­fjörðum og spratt verk­efnið upp úr rann­sókn­inni. Hall­dóra seg­ir við mbl.is að upp­lif­un allra sem hún ræddi við hafi verið stór­kost­leg. Hins veg­ar var ljóst að það mátti gera aðeins meira, bæði til að kynna áfangastaðinn og til að halda utan um æv­in­týrið.

Halldóra Björk á góðri stund hjólandi um Vestfirskar heiðar.
Hall­dóra Björk á góðri stund hjólandi um Vest­firsk­ar heiðar. Ljós­mynd/​Cycl­ing West­fjords

Ásamt Hall­dóru komu þrír aðrir ein­stak­ling­ar að því að taka þetta verk­efni áfram og úr varð Cycl­ing West­fjords. „Við átt­um lítið sam­eig­in­legt nema áhuga á hjól­reiðum á Vest­fjörðum,“ seg­ir hún. Hóp­ur­inn sam­an­stend­ur af Ómari Smára Krist­ins­syni sem hef­ur gefið út átta hjóla­bæk­ur, Nanný Guðmunds­dótt­ur hjá Bor­ea advent­ur­es, Tyler Wacker sem er í námi í há­skóla­setr­inu og svo Hall­dóru. Til viðbót­ar hef­ur Lynn­ee Jacks aðstoðað við keppn­ina.

Frá 809 km upp í 1.200 km hringi

Hall­dóra seg­ir að sam­hliða námi sínu hafi hún hjólað Jak­obs­veg­inn á Spáni og þar hafi verið í boði fyr­ir fólk að skrá sig, safna stimpl­um og í lok­in að fá viður­kenn­inga­skjal. Seg­ir Hall­dóra að hjá Cycl­ing West­fjords sé svipuð hug­mynda­fræði, en til viðbót­ar bjóði fé­lagið ferðalöng­um upp á upp­hafspakka með góðgæti og upp­lýs­ing­um um leiðina og þá sé í boði ákveðið bak­land fyr­ir ferðalanga ef eitt­hvað kem­ur upp.

Tyler Wacker er einn hinna fjögurra sem koma að Cycling …
Tyler Wacker er einn hinna fjög­urra sem koma að Cycl­ing West­fjords, en auk þess starfar hann hjá há­skóla­setr­inu og með lítið reiðhjóla­verk­stæði á Ísaf­irði. Ljós­mynd/​Cycl­ing West­fjords

Leiðirn­ar sem hafa verið sett­ar upp eru þrjár og draga nöfn sín frá þekkt­um fugl­um. Stysta leiðin er Smyr­ill­inn. Það er 809 km leið, þar af 18% á möl, með 11.300 metra hækk­un (rúm­lega 5,3 Hvanna­dals­hnúk­ar). Svo er það Fálk­inn sem er 1.044 km með tæp­lega þriðjung á möl. Sam­tals þarf þarf að klifra 15.000 metra (7,1 Hvanna­dals­hnúk­ur). Að lok­um er það lengsta og erfiðasta leiðin, Örn­inn. Þar er far­in 1.200 km leið sem er að helm­ingi á möl, með 19.400 metra hækk­un (9,2 Hvanna­dals­hnúk­ar).

Hall­dóra seg­ir að mun­ur­inn á þess­um leiðum séu allskon­ar fram­hjá­hlaup eða sleppt að fara út­úr­dúra. Þannig í stystu leiðunum sleppt að fara Fells- og Skarðsstrend­urn­ar og í þegar kem­ur að Ern­in­um sé t.d. farið Sval­voga, Breiðadals­heiði, Botns­heiði og upp á Bola­fjall sem og Dranga­nes­hring­inn og þverað yfir Vest­fjarðar­háls­inn sunn­ar en ann­ars er farið. Þannig sé hægt að sníða leiðirn­ar eft­ir getu­stigi hvers og eins sem á annað borð hef­ur gam­an af hjóla­ferðalög­um.

Lít­il um­ferð, nátt­úra og breyti­leg vindátt

Spurð út í aðdrátt­ar­afl Vest­fjarða sem hjól­reiðaáfangastaðar seg­ir Hall­dóra að fyr­ir utan nátt­úr­una sé al­mennt mjög lít­il um­ferð á veg­un­um. Það sé eitt­hvað sem hjól­reiðafólk sé alla jafna spennt fyr­ir. Þá sé líka mjög lítið flat­lendi í boði á Vest­fjörðum. Hjóla­leiðirn­ar séu því mest upp og niður, en líka inn og út firði. Með firðina hef­ur það þau áhrif að þeir sem eru að hjóla eru ekki í mótvindi all­an dag­inn, held­ur er kanski mótvind­ur út fjörðinn, en meðvind­ur inn hann. Seg­ist hún sjálf hafa lent í því í hjóla­ferð er­lend­is að vera í mótvindi all­an dag­inn og að hún kjósi fjöl­breytn­ina um­fram þá reynslu.

Þeir sem hjóla um Vestfirði geta átt von á nokkuð …
Þeir sem hjóla um Vest­f­irði geta átt von á nokkuð fjöl­breyttu lands­lagi. Allt frá því að fara hátt upp á heiðar og svo niður að sjó. Ljós­mynd/​Rugile Kala­dyte

Er­lend­ir áhrifa­vald­ar og of­ur­hjól­reiðakona

„En svo bætt­ist við mót sem datt upp í hend­urn­ar á okk­ur,“ bæt­ir Hall­dóra við. Þar á hún við of­ur­hjóla­keppn­ina West­fjords Way Chal­lenge. Hún seg­ir að í fyrra hafi nokkr­ir áhrifa­vald­ar komið og hjólað á Vest­fjörðum og komið með hug­mynd­ina að fjöl­dægra keppni, en slík­ar keppn­ir þekkj­ast er­lend­is. Um var að ræða m.a. ljós­mynd­ar­ann og æv­in­týra­mann­inn Chris Burkard sem hef­ur dá­læti á Íslandi og kem­ur hingað reglu­lega til að sigr­ast á ým­is­kon­ar áskor­un­um og til að taka mynd­ir. Með hon­um í för var einnig Lael Wilcox, en hún er ein þekkt­asta og sig­ur­sæl­asta kon­an í of­ur­hjól­reiðum og hef­ur meðal ann­ars sigrað 7.000 km keppni þvert yfir Banda­rík­in og var þar einnig á und­an öll­um, bæði kon­um og körl­um.

Hall­dóra seg­ir að Cycl­ing West­fjords-hóp­ur­inn hafi tekið þessa hug­mynd upp á sína arma og keppn­in sé nú fyr­ir­huguð sem milli­bils­leið á milli Smyr­ils­ins og Fálk­ans, en leiðin fékk nafnið Krí­an. Er það sam­tals 930 km leið með 14.500 metra hækk­un (6,9 Hvanna­dals­hnúk­ar). Þá seg­ir hún að bæði Burkard og Wilcox hafi verið dug­leg að aug­lýsa keppn­ina á sam­fé­lags­miðlum og því fái þau strax tals­verðan meðbyr varðandi að koma keppn­inni á fram­færi, en Burk­h­ard er meðal ann­ars með 3,7 millj­ón­ir fylgj­enda á In­sta­gram. Bæði hafa þau jafn­framt staðfest þátt­töku sína í sum­ar í fyrstu keppn­inni, en keppn­in fer fram 28. júní til 3. júlí.

Þetta er þó ekki eina at­hygl­in sem Vest­f­irðir hafa fengið í hjóla­sam­fé­lag­inu er­lend­is, því í lok des­em­ber birt­ist heim­ild­ar­mynd um ferðalag hjól­reiðakon­unn­ar Jenny Gra­ham um Vest­f­irði í fyrra. Birt­ist heim­ild­ar­mynd­in á ein­um fjöl­sótt­asta hjóla­miðli heims, GCN, en þar er jafn­framt fjallað um Cycl­ing West­fjords verk­efnið.

Ekki fyr­ir hvern sem er

Hall­dóra tek­ur fram að keppn­in sé ekki fyr­ir hvern sem er, enda yfir 200 km leið hvern keppn­is­dag, farið sé yfir fjölda heiða og þá þurfi einnig að bera með sér mest all­an búnað. „Það fer ekk­ert hver sem er um 250 km á dag fjóra daga af fimm.“

Fyrsta dag­inn er hjólað frá Ísaf­irði inn Djúpið og yfir Stein­gríms­fjarðar­heiði gegn­um Drangs­nes og í Bjarn­ar­fjörð þar sem er gist. Sam­tals eru þetta 255 km og tæp­lega 3.000 metra hækk­un. Hall­dóra tal­ar þó enn um þetta sem einn af létt­ari dög­un­um, þó þetta sé lengsti staki legg­ur­inn.

Næsta dag er haldið úr Bjarnar­f­irði, fram­hjá Hólma­vík og niður Strand­ir áður en farið er yfir Laxár­dals­heiði og út Fells­strönd­ina. Sam­tals eru þetta 238 km og tæp­lega 3.900 metra hækk­un. Þriðja dag­inn er svo farið fyr­ir Klofn­ing og inn Skarðsströnd­ina og gegn­um alla Barðastranda­sýslu og á Pat­reks­fjörð. Dag­leiðin er 228 km og 3.200 metr­ar í hækk­un.

Dagleiðirnar fjórar eru mislangar og með mismikilli hækkun, en allar …
Dag­leiðirn­ar fjór­ar eru mis­lang­ar og með mis­mik­illi hækk­un, en all­ar þeirra eru krefj­andi. Kort/​Cycl­ing West­fjords

Ræs­ing á miðnætti

Eft­ir þessa þrjá daga gefst kepp­end­um færi á að hvíla sig yfir dag­inn eða skoða ná­grennið, en fjórða dag­leið er svo ræst út á miðnætti. „Það er sól all­an sól­ar­hring­inn og eng­in um­ferð,“ seg­ir Hall­dóra og bæt­ir við að þetta gefi keppn­inni von­andi smá áhuga­verðan vink­il. Farið er frá Pat­reks­firði og yfir í Arn­ar­fjörð og svo Sval­voga, Dýra­fjörð og yfir Breiðdals­heiði á Ísa­fjörð þar sem keppn­inni lýk­ur form­lega.

Menn­ing­ar­stopp hluti af æv­in­týr­inu

Þrátt fyr­ir að hjóla­ferðalagið sé stærsti hluti keppn­inn­ar þá er hún að sögn Hall­dóru ekki bara hrein­ræktuð keppni. Þannig þurfa kepp­end­ur að taka menn­ing­ar­stopp á hverj­um degi á fyr­ir fram ákveðnum stöðum þar sem tíma­tak­an stopp­ar. Þetta eru t.d. heit­ar laug­ar og söfn sem eru á leið kepp­enda, en sem dæmi um slík stopp nefn­ir Hall­dóra Litla-Bæ, Hörgs­laug og Dynj­anda.

Tek­in hef­ur verið frá gist­ing á gististöðum á öll­um stöðum fyr­ir kepp­end­ur, en auk þess er í boði að gista í tjöld­um og mun keppn­in út­vega þau að sögn Hall­dóru.

Von­ast eft­ir 20-30 Íslend­ing­um

Spurð út í hvað fjölda þátt­tak­enda seg­ir Hall­dóra að miðað sé við 100 kepp­end­ur. Opnað verður fyr­ir skrán­ingu Íslend­inga 18. Janú­ar, en Hall­dóra seg­ir að miðað við erfiðleika­stig keppn­inn­ar væri mjög flott ef 20-30% þátt­tak­enda væru frá Íslandi. Miðað við áhuga er­lend­is frá ger­ir hún von á að fljót­lega eft­ir að opnað verði fyr­ir skrán­ingu er­lend­is frá, viku síðar, fylli þau kepp­endal­ist­ann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert