Djokovic gæti fengið að koma fyrr

Novak Djokovic.
Novak Djokovic. AFP

Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic gæti fengið að koma aftur til Ástralíu fyrr en lög gera ráð fyrir eftir að honum var vísað úr landi í gær.

Djokovic er ekki bólusettur fyrir kórónuveirunni og samkvæmt útlendingalögum Ástralíu er krafa gerð um að þeir sem heimsækja landið séu bólusettir. Af þessum sökum var vegabréfsáritun Djokovic tvívegis felld úr gildi.

Samkvæmt útlendingalögum Ástralíu er þeim sem vísað er úr landi bannað að fá vegabréfsáritun til þess að komast inn í landið í þrjú ár eftir að þeim er vísað úr því.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur þó látið hafa eftir sér að Djokovic gæti fengið undanþágu á því.

„Bannið nær yfir þrjú ár en það er möguleiki fyrir fólk að snúa aftur undir réttum kringumstæðum og það yrði skoðað þegar þar að kemur,“ sagði Morrison í samtali við áströlsku útvarpsstöðina 2GB í dag.

Samkvæmt áströlskum lögum má fella þriggja ára vegabréfsáritunarbannið úr gildi ef fólk sem því sætir getur sýnt fram á sannfærandi og/eða mannúðlegar ástæður fyrir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert