Hrósaði stuðningsmönnum fyrir að fleygja aðskotahlutum inn á völlinn

Dak Prescott svekktur eftir tapið um síðustu helgi.
Dak Prescott svekktur eftir tapið um síðustu helgi. AFP

Dak Prescott, leikstjórnandi Dallas Cowboys í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, hefur beðist afsökunar á því að hafa hrósað stuðningsmönnum liðsins fyrir að fleygja aðskotahlutum í átt að dómurum.

Dallas tapaði fremur óvænt, 17:23, fyrir San Francisco 49ers, í úrslitakeppni NFL um síðustu helgi. Prescott sagði þá upphaflega að það væri leitt að stuðningsmenn liðsins væru að fleygja aðskotahlutum í átt að liðinu.

Þegar fjölmiðlamaður tjáði honum þá að verið væri að fleygja aðskotahlutum í átt að dómurum leiksins sagði Prescott: „Hrós til þeirra.“

Hann baðst síðar afsökunar á twitteraðgangi sínum þar sem hann skrifaði:

„Ég lét tilfinningarnar bera mig ofurliði eftir svekkjandi tap og orð mín voru ónauðsynleg og ósanngjörn.

Ég sé innilega eftir þeim ummælum sem ég lét falla um dómara leiksins eftir að honum lauk. Ég hef mikið álit á dómurum NFL-deildarinnar og hef ævinlega virt fagmennsku þeirra og hversu erfitt starf þeirra er.

Öryggi allra þeirra sem sækja íþróttaviðburði eða taka þátt í honum með einum eða öðrum hætti er grafalvarlegt mál. Þetta voru mistök af minni hálfu og ég biðst afsökunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert