Skíðakappinn Hilmar Snær Örvarsson náði þeim glæsilega árangri í dag að enda í fimmta sæti í svigi á heimsmeistaramóti fatlaðra í Lillehammer í Noregi.
Hilmar varð níundi í fyrri ferðinni eins og áður hefur komið fram og í seinni ferðinni gerði hann enn betur og hækkaði sig upp í fimmta sætið.
Hann varð samtals 7,3 sekúndum á eftir heimsmeistaranum Arthur Bauchet frá Frakklandi sem hafði talsverða yfirburði. Adam Hall frá Nýja-Sjálandi fékk silfrið og Alexander Aljabjev frá Rússlandi bronsið, en aðeins munaði einni sekúndu samanlagt á þeim Hilmari og Aljabjev.
Hilmar var eini keppandi Íslands á heimsmeistaramótinu að þessu sinni.