Í gærkvöldi fór fram tvíhöfði í íþróttahúsinu í Neskaupstað þegar karla- og kvennalið Þróttar úr Fjarðabyggð tóku á móti liðum KA í úrvalsdeildum karla og kvenna í blaki. Fór það svo að KA krækti í öll stigin úr leikjunum tveimur.
Í karlaleiknum voru fyrstu tvær hrinurnar jafnar og var önnur hrinan sérstaklega spennandi. KA-menn reyndust svo mun sterkarí í þriðju hrinu en leikurinn endaði með 3:0 sigri KA manna, 25:21, 25:23 og 25:19
Stigahæstir í liði Þróttar voru Miguel Angel Ramos með 16 stig og bætti Andri Snær Sigurjónsson við 11 stigum.
Þess má geta að feðgarnir Hlöðver Hlöðversson og Egill Kolka Hlöðversson léku saman í liði Þróttar í leik gærkvöldsins. Egill var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu og faðir hans Hlöðver byrjaði á varamannabekknum en kom síðar inn á.
Stigahæstur KA-manna var Miguel Mateo með 15 stig og þeir Oscar Fernandez og Alexander Arnar Þórisson báðir með 13.
KA er eftir sigurinn í fjórða sæti deildarinnar en Þróttur úr Fjarðabyggð í því sjötta.
Heldur meiri spenna var í kvenna leiknum. KA-konur byrjuðu betur og unnu fyrstu hrinu en svo snerust leikar við í annarri hrinu sem heimakonur sigruðu örugglega.
Þriðja hrina var hörku spennandi og virtist sem Þróttur úr Fjarðabyggð væri að tryggja sér sigur í henni áður en KA sigldi fram úr á lokametrunum. Héldu norðankonur auk þess dampi í fjórðu hrinu sem þær sigruðu örugglega og þar með leikinn 3:1, 25:16, 13:25, 25:23 og 25:13.
Stigahæst hjá Þrótti var afmælisbarnið Heiða Elísabet Gunnarsdóttir með 13 stig og bættu Ester Rún Jónsdóttir og Paula Miguel de Blaz við 11 stigum hvor.
Stigahæst hjá KA og í leiknum var Tea Andric með 26 stig og þar á eftir kom Paula del Olmo með 13.
Eftir leikina er KA á toppi deildarinnar og Þróttur úr Fjarðabyggð er í þriðja sæti.