Feðgar léku saman í úrvalsdeild

Hlöðver Hlöðversson (nr. 15) fagnar stigi hjá syni sínum Agli …
Hlöðver Hlöðversson (nr. 15) fagnar stigi hjá syni sínum Agli Kolka Hlöðverssyni (nr. 9) í gær. Ljósmynd/Sigga Þrúða

Í gærkvöldi fór fram tvíhöfði í íþróttahúsinu í Neskaupstað þegar karla- og kvennalið Þróttar úr Fjarðabyggð tóku á móti liðum KA í úrvalsdeildum karla og kvenna í blaki. Fór það svo að KA krækti í öll stigin úr leikjunum tveimur.

Í karlaleiknum voru fyrstu tvær hrinurnar jafnar og var önnur hrinan sérstaklega spennandi. KA-menn reyndust svo mun sterkarí í þriðju hrinu en leikurinn endaði með 3:0 sigri KA manna, 25:21, 25:23 og 25:19

Stigahæstir í liði Þróttar voru Miguel Angel Ramos með 16 stig og bætti Andri Snær Sigurjónsson við 11 stigum.

Þess má geta að feðgarnir Hlöðver Hlöðversson og Egill Kolka Hlöðversson léku saman í liði Þróttar í leik gærkvöldsins. Egill var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu og faðir hans Hlöðver byrjaði á varamannabekknum en kom síðar inn á.

Börkur Marinósson spilar upp á Alexander Arnar Þórisson hjá KA …
Börkur Marinósson spilar upp á Alexander Arnar Þórisson hjá KA og Egill Kolka Hlöðversson, José Federico Martín og Andri Snær Sigurjónsson hjá Þrótti úr Fjarðabyggð búa sig undir að fara í hávörn. Ljósmynd/Sigga Þrúða

Stigahæstur KA-manna var Miguel Mateo með 15 stig og þeir Oscar Fernandez og Alexander Arnar Þórisson báðir með 13.

KA er eftir sigurinn í fjórða sæti deildarinnar en Þróttur úr Fjarðabyggð í því sjötta.

Heldur meiri spenna var í kvenna leiknum. KA-konur byrjuðu betur og unnu fyrstu hrinu en svo snerust leikar við í annarri hrinu sem heimakonur sigruðu örugglega.

Þriðja hrina var hörku spennandi og virtist sem Þróttur úr Fjarðabyggð væri að tryggja sér sigur í henni áður en KA sigldi fram úr á lokametrunum. Héldu norðankonur auk þess dampi í fjórðu hrinu sem þær sigruðu örugglega og þar með leikinn 3:1, 25:16, 13:25, 25:23 og 25:13.

Spánverjarnir og nöfnurnar Paula Del Olmo hjá KA og Paula …
Spánverjarnir og nöfnurnar Paula Del Olmo hjá KA og Paula Miguel de Blaz hjá Þrótti úr Fjarðabyggð í baráttu upp við netið. Ljósmynd/Sigga Þrúða

Stigahæst hjá Þrótti var afmælisbarnið Heiða Elísabet Gunnarsdóttir með 13 stig og bættu Ester Rún Jónsdóttir og Paula Miguel de Blaz við 11 stigum hvor.

Stigahæst hjá KA og í leiknum var Tea Andric með 26 stig og þar á eftir kom Paula del Olmo með 13.

Eftir leikina er KA á toppi deildarinnar og Þróttur úr Fjarðabyggð er í þriðja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert