Fimm íslenskir keppendur á Norðurlandamótið

Hluti af íslenska hópnum, þar á meðal allir fimm keppendurnir, …
Hluti af íslenska hópnum, þar á meðal allir fimm keppendurnir, sem er á leið til Danmerkur. Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Alls héldu fimm keppendur til Danmerkur í morgun til keppni á Norðurlandamótinu á listskautum.

Keppni hefst strax í dag, fimmtudag, þar sem keppt er í stuttu prógrammi í bæði efsta stigi stúlkna (Advanced Novice) og unglingaflokki (Junior Women). 

Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir og Sædís Heba Guðmundsdóttir keppa á efsta stigi stúlkna en þær tryggðu sér í nóvember efstu tvö sætin á Íslandsmeistaramótinu í greininni.

Í unglingaflokki kvenna keppa Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Júlía Rós Viðarsdóttir sem einnig skipuðu efstu tvö sætin á Íslandsmeistaramótinu í þeirra flokki.

Þær stöllur voru einnig fulltrúar Íslands á Heimsmótaröð unglinga (Junior Grand Prix) í ágúst og september síðastliðnum þar sem Júlía Rós setti þátttökustigamet Íslendings á mótaröðinni með glæsilegri frammistöðu í Frakklandi. Báðar stúlkurnar munu reyna við tæknistig sem myndu duga til þátttöku á Heimsmeistaramóti unglinga sem haldið verður í mars næstkomandi.

Í fullorðinsflokki kvenna (Senior Women) keppir svo Aldís Kara Bergsdóttir en hún er flestum kunn eftir magnaða frammistöðu undanfarin tvö ár.

Hún er nýkomin af Evrópumeistaramótinu þar sem hún keppti fyrst íslenskra skautara og er stíf dagskrá framundan.

Aldís Kara mun reyna við tæknistig fyrir Heimsmeistaramót Alþjóðaskautasambandsins en Ísland hefur aldrei átt keppanda á því móti í einstaklingsgrein. Tæknistigunum þarf að ná á móti viðurkenndu af alþjóðasambandinu og tilheyra bæði Norðurlandamótið og Reykjavíkurleikarnir, sem eru brátt á dagskrá, á þeim lista.

Norðurlandamótið stendur yfir í tíu daga og telur íslenski hópurinn áðurnefnda fimm keppendur ásamt tveimur þjálfurum, liðstjóra og þremur fulltrúum á dómarapanel.

Hægt er að fylgjast með Norðurlandamótinu í beinu streymi á youtube-rás danska skautasambandsins. Hlekk á streymið ásamt dagskrá og tilkynningu úrslita er hægt að finna á heimasíðu mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert