Hin ástralska Ashleigh Barty er búin að tryggja sér sæti í úrslitum Opna ástralska mótsins í tennis eftir að hún hafði betur gegn Bandaríkjakonunni Madison Keys í dag.
Barty er þar með fyrsti tennisleikarinn frá Ástralíu sem kemst í úrslit á Opna ástralska í 42 ár og gæti orðið fyrsti Ástralinn til þess að vinna á heimavelli síðan Christine O’Neil gerði það fyrir 44 árum.
Barty, sem vann Wimbledon-mótið á síðasta ári, hafði betur gegn Keys í dag með því að vinna fyrsta sett 6:1 og annað sett 6:3 og viðureignina þar með 2:0.
Í úrslitaleiknum á laugardag mun hún mæta annað hvort Igu Swiatek frá Póllandi eða Danielle Collins frá Bandaríkjunum, en þær etja kappi síðar í dag.