Afturelding gerði góða ferð í Kópavog í gærkvöld og lagði þar að velli HK-inga, 3:0, í uppgjöri liðanna í öðru og þriðja sæti úrvalsdeildar karla í blaki.
Afturelding vann fyrstu tvær hrinurnar 25:19 og 25:21. Eftir hnífjafna og margframlengda baráttu í þriðju hrinu knúðu Mosfellingar fram sigur, 29:27, og þar með var leik lokið.
Afturelding er því með 21 stig í þriðja sætinu en HK er með 30 stig í öðru sæti og tókst ekki að jafna við topplið Hamars sem er með 33 stig og á nú leik til góða.
Stigahæstur í liði HK var Hristiyan Dimitrov með 23 stig. Í liði Aftureldingar var Sigþór Helgason stigahæstur með 16 stig.