Tom Brady, leikstjórnandi Tampa Bay Buccaneers og sigursælasti leikmaður bandarísku NFL-deildarinnar frá upphafi er hættur.
Hinn 44 ára gamli Brady er þekktastur fyrir tíma sinn hjá New England Patriots en hann lék með liðinu í 19 ár frá árinu 2000 og vann sex titla. Árið 2020 skipti hann svo yfir til Tampa Bay og vann titil þar á sínu fyrsta tímabili.
Buccaneers duttu út úr úrslitakeppni NFL-deildarinnar þetta árið gegn Los Angeles Rams og hefur Brady nú ákveðið að láta gott heita.
Á ferlinum vann Tom Brady sjö titla og er án nokkurs vafa besti leikstjórnandi deildarinnar frá upphafi. Hann var valinn númer 199 í nýliðavalinu árið 2000 sem gerir feril hans í raun enn magnaðri. Þá var hann fimm sinnum valinn verðmætasti leikmaður Ofurskálarinnar. Hann á metið yfir flestar snertimarkssendingar og flesta sendingajarda.