Völsungur vann 3:1 sigur á Þrótti Reykjavík í úrvalsdeild kvenna í blaki á Húsavík í dag. Fyrir leik voru gestirnir með 2 stig á botninum en Völsungur í næst neðsta sæti með 5 stig.
Fyrsta hrina fór jafnt af stað og var jafnt á öllum tölum. Þegar á leið náði Völsungur þó tökum á hrinunni og unnu hana að lokum 25:20.
Í annari hrinu byrjaði Þróttur betur og komst í 3:1 og 7:3. Völsungur átti engin svör við spilamennsku Þróttar í hrinunni sem gestirnir unnu 25:13.
Í þriðju hrinu byrjaði Völsungur betur en Þróttarstúlkur hengu í þeim staðráðnar að fylgja eftir ákefðinni í 2. hrinu. Eftir spennandi endasprett vann Völsungur hrinuna 25:22 með fallegu smassi Ky Hunt beint í gólf.
Fjórða hrina var svo algjör einstefna heimakvenna en þær komust m.a. í 8:2 og 16:4. Þróttur komst aldrei nálægt því að jafna og lauk hrinunni 25:12, Völsungi í vil. Lokatölur í leiknum því 3:1 sigur Völsungs.
Vissulega munaði mikið um að í lið Þróttar vantaði tvær af þremur stigahæstu leikmönnum liðsins, þær Eldey Hrafnsdóttur og Nicole Johansen. Þrátt fyrir sigurinn er Völsungur enn í næst neðsta sæti en er nú með átta stig. Þróttur er áfram á botninum með tvö stig.
Stigahæst í lið Völsunga var Ky Hunt með 24 sitig en í liði Þróttar Reykjavík var Arna Védís Bjarnadóttir stigahæst með 9 stig.