Spánverjinn Rafael Nadal skráði sig í sögubækurnar er hann vann magnaðan sigur á Rússanum Daniil Medvedev í úrslitaleik Opna ástralska meistaramótsins í tennis í dag. Um sannkallaða maraþonviðureign var að ræða því leikurinn entist í fimm klukkutíma og 24 mínútur.
Nadal er kominn með flesta sigra allra á risamótum eða 21, einum fleiri en Svisslendingurinn Rodger Federer og Serbinn Novak Djokovic. Djokovic var ekki með í ár þar sem honum var vísað úr Ástralíu fyrir að vera óbólusettur og Federer, sem er orðinn fertugur, er meiddur.
Rússinn fór betur af stað og vann tvö fyrstu settin, 6:2 og 7:6. Nadal neitaði að gefast upp og jafnaði með að vinna næstu tvö sett 6:4. Eftir upphækkun í oddasettinu vann Nadal að lokum 7:5 og leikinn og mótið í leiðinni.
Sigurinn er magnaður fyrir Nadal sem óttaðist að ferlinum væri lokið á síðasta ári er hann var frá keppni í sex mánuði vegna meiðsla.
Sigurinn var sá fyrsti hjá Nadal á Opna ástralska frá árinu 2009. Hann hefur nú unnið Opna ástralska tvisvar, Opna franska 13 sinnum, Opna bandaríska fjórum sinnum og Wimbledon-mótið tvisvar. Þá varð hann Ólympíumeistari í einliðaleik árið 2008.