Í síðustu viku „láku“ þær fréttir út að Tom Brady, leikstjórnandi Tampa Bay Buccaneers, hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna og enda þar með leikferil sinn.
Hann hefur ekki staðfest þær fréttir, enda vildi hann sjálfsagt ekki skyggja á sviðsljósið sem undanúrslitaleikirnar fengu um liðna helgi. Hann gaf í skyn í viðtölum eftir að hafa tapað gegn Los Angeles Rams í átta-liða úrslitunum að hann væri óviss um að halda áfram leik og sagði að fjölskylda sín hefði þegar fórnað of miklu fyrir leikferil hans.
Í viðtali eftir tapið gegn LA Rams sagði Brady: „Þegar keppnistímabilið hefst verður maður að leggja sig allan í verkefnið og það þýðir að oft er ég að taka tölvuna mína inn á heimilisskrifstofuna til að loka mig frá öllu ónæði sem gæti truflað mig. Ég er oft að eyða tveimur eða þremur tímum í að fara yfir leik næstu andstæðinga og það hefur bitnað á eiginkonunni og börnunum. Ég hef líka misst of mikið af því sem krakkarnir mínir eru að gera og það gengur ekki til lengdar því maður fær ekki þá reynslu með börnunum aftur.“
Brady var valinn í sjöttu umferð háskólavalsins af New England Patriots árið 1999 og voru 199 leikmenn valdir áður en Patriots gáfu honum tækifæri. Þrátt fyrir að hann væri ekki talinn líklegur til afreka af sérfræðingum liðanna vann hann sjö titla sem leikstjórnandi sigurliðsins, þremur fleiri en næstu menn í sögu deildarinnar – þann síðasta með Tampa Bay á síðasta keppnistímabili.
Stutt sagt er hann langbesti leikstjórnandinn í sögu deildarinnar, sérstaklega í úrslitakeppnum.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.