Forráðamenn Leiknis úr Reykjavík eru stórhuga þegar kemur að uppbyggingu félagsins í Efra-Breiðholti.
Í síðustu viku tók menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur fyrir erindi Leiknismanna sem snýr meðal annars að breyttri þörf félagsins á aðstöðu vegna nýrra deilda innan Leiknis en í erindinu kemur meðal annars fram að félagið vilji reyna að höfða til fleiri iðkenda með áhuga á öðrum íþróttagreinum.
„Félagið hefur verið svokallað eingreinafélag þar sem áherslan hefur fyrst og fremst verið á knattspyrnu, bæði karla- og kvennamegin,“ sagði Stefán Páll Magnússon, framkvæmdastjóri Leiknis, í samtali við Morgunblaðið.
„Það er hins vegar þannig að það hafa ekki allir áhuga á knattspyrnu og við viljum þess vegna bjóða upp á meiri þjónustu til þess að ná til fleiri iðkenda. Það var gerð þarfagreining á meðal íbúa í Efra-Breiðholti árið 2017 og niðurstöðurnar úr henni voru mjög skýrar. Það er mikill áhugi á fleiri íþróttagreinum í Efra-Breiðholti og þar koma íþróttir á borð við blak, körfubolta og badminton mjög sterkar inn en félagið er búin að endurvekja körfuboltadeildina sem hefur verið til innan félagsins í mörg ár.
Við byrjuðum að bjóða upp á blak haustið 2020 og viljum halda áfram með það og eins viljum við bjóða upp á badminton líka. ÍR býður ekki upp á blak né badminton en vinnan í Efra-Breiðholti er öðruvísi en í Neðra-Breiðholti vegna samsetningu íbúa. Við höfum hins vegar heyrt af áhuga á þessum íþróttagreinum út undan okkur hér í Breiðholtinu og viljum koma til móts við þann áhuga,“ sagði Stefán Páll.
Leiknismenn hafa lagt það til við Reykjavíkurborg að félagið fái afhent íþróttahúsið í Austurbergi til ráðstöfunar að fullu en félagið hyggst tefla fram meistaraflokkum í bæði blaki og körfuknattleik á næstu leiktíð.
„Við viljum reyna að færa út kvíarnar varðandi blakið sem dæmi en það er bara þannig að aðstöðuleysið háir okkur mjög mikið því við erum bara með ákveðið marga æfingatíma í Fellaskóla. Það sama mun gerast í körfuboltanum en við höfum náð samkomulagi við Körfuknattleiksfélagið Aþenu um að félögin muni leika undir merkjum sameiginlegs liðs á næstu leiktíð. Staðreyndin er hins vegar sú að okkur vantar heimavöll fyrir báðar íþróttagreinar."
Karlalið Leiknis í efstu deild fékk undanþágu til þess að leika heimaleiki sína á komandi keppnistímabili á Leiknisvelli í Breiðholti en framtíðarsýn félagsins er að leggja gervigras á aðalvöllinn svo hann nýtist iðkendum félagsins sem best.
Fréttaskýringuna má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.