Tom Brady hættur

Tom Brady segir þetta gott.
Tom Brady segir þetta gott. AFP

Leikstjórnandinn Tom Brady hefur formlega tilkynnt að hann sé hættur iðkun amerísks fótbolta. Kvisast hafði út að hin 44 ára gamla goðsögn hygðist hætta og nú hefur Brady sjálfur tekið af allan vafa þar um.

Brady er sigursælasti leikmaður í sögu NFL-deildarinnar þar sem hann hefur unnið alls sjö meistaratitla, sex með New England Patriots og einn með Tampa Bay Buccaneers þar sem hann lék síðustu tvö ár ferilsins.

Vann hann meistaratitilinn ansi óvænt á sínu fyrsta tímabili með Tampa Bay fyrir tæpu ári síðan.

„Ég hef ávallt staðið í þeirri trú að fótboltaíþróttin sé eitthvað sem maður verður að taka alla leið – ef þú leggur þig ekki 100 prósent fram við keppni muntu ekki ná árangri og árangur er eitt af því sem ég elska hvað mest við íþróttina okkar.

Í íþróttinni eru til staðar líkamlegar, andlegar og tilfinningalegar áskoranir á hverjum einasta degi og þær hafa gert mér kleift að hámarka alla mína möguleika. Og ég hef lagt mig allan fram þessi 22 ár. Það eru engar flýtileiðir í boði, hvorki á vellinum né í lífinu.

Það er mér erfitt að skrifa þetta en hér kemur það: Ég mun ekki halda áfram að leggja mig fram við keppni. Ég hef elskað feril minn í NFL og nú er kominn tími til þess að einbeita mér og eyða tíma mínum og orku í aðra hluti sem krefjast athygli minnar,“ skrifaði Brady á twitteraðgangi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert