Lið Washington í NFL-deildinni í amerískum fótbolta hefur tilkynnt um breytingu á heiti liðsins. Eftir að hafa borið nafnið Washington Football Team í tæp tvö ár er nýtt heiti liðsins Washington Commanders.
Liðið hét um langt árabil Washington Redskins en eftir að mótmæli, sem sneru að því að það heiti væri til marks um um kynþáttafordóma í garð frumbyggja Ameríku, urðu sífellt háværari var ákveðið að breyta heitinu í júlí árið 2020.
Hótanir styrktaraðila um að draga stuðning sinn til baka hafði einnig mikið að segja um það að Dan Snyder, eigandi liðsins, hafi loks ákveðið að láta undan og leggja heitinu umdeilda, sem fjölmargir stuðningsmenn liðsins höfðu sömuleiðis lagt til.
Í júlí 2020 varð liðið að Washington Football Team en alltaf stóð til að breyta heitinu að nýju, sem hefur nú verið gert og verður liðið framvegis þekkt sem Washington Commanders.