Brady bestur í sögu NFL

Bill Belichick og Tom Brady á góðri stundu.
Bill Belichick og Tom Brady á góðri stundu. AFP

Bill Belichick, aðalþjálfari New England Patriots í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, segir leikstjórnandann Tom Brady vera besta leikmann í sögu deildarinnar.

Belichick og Brady störfuðu saman hjá New England um tuttugu ára skeið þar sem þeir unnu sex NFL-meistaratitla í sameiningu.

Brady bætti svo við einum meistaratitli til viðbótar með Tampa Bay Buccaneers á síðasta ári áður en hann tilkynnti að hann væri hættur fyrr í vikunni.

„Ég álít það forréttindi að hafa valið Tom Brady í nýliðavalinu og þjálfað hann, mann sem er hinn fullkomni keppnismaður og sigurvegari.

Látlaus byrjun Toms í atvinnufótbolta leiddi á endanum til þess að hann varð besti leikmaðurinn í sögu NFL,“ skrifaði Belichick í yfirlýsingu.

Einhverja yfirsýn hefur hinn 69 ára gamli Belichick yfir gæði leikmanna í gegnum árin þar sem hann hefur starfað sem þjálfari í NFL-deildinni um 47 ára skeið.

„Tom skilaði stöðugt góðum frammistöðum á hæsta stigi gegn liðum sem eyrnamerktu hann ávallt sem leikmanninn sem þurfti hvað helst að stöðva.

Stanslaus leit hans að ágæti veitti manni innblástur. Tom var fagmannlegur innan sem utan vallar og kom fram af klassa, heilindum og góðvild.

Ég þakka Tom fyrir stöðuga leit sína þegar kom að því að skara fram úr og þau jákvæðu áhrif sem hann hafði á mig og New England Patriots um tuttugu ára skeið,“ skrifaði Belichick einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert