Snjóbrettakonan og Ólympíumeistarinn Chloe Kim gekk í gegnum erfiða tíma eftir að hún fór með sigur af hólmi í hálfpípukeppni Ólympíuleikanna í Pyeongchang í Suður-Kóreu árið 2018.
Kim, sem er 21 árs gömul í dag, er bandarísk en foreldar hennar eru fæddir í Suður-Kóreu. Hún er jafnframt yngsti keppendinn í sögu brettakeppni Ólympíuleikanna til þess að vinna til gullverðlauna en hún var 17 ára í Suður-Kóreu árið 2018.
Hún varð stórstjarna í Bandaríkjunum eftir Ólympíugullið og sjálf átti hún erfitt með að höndla álagið sem fylgir því að vera barnastjarna í landinu.
„Ég kem heim til foreldra minna þar sem ég bjó á þessum tíma og þetta var hrikalega erfitt,“ sagði Kim í samtali við TIME.
„Ég var búinn að æfa alla mína ævi fyrir ákveðið augnablik sem var nú liðið hjá og ég vissi í raun ekkert hvað ég ætti að gera af mér. Ég fór út í eitt skiptið í uppáhalds bakaríið mitt en um leið og ég labbaði inn fór fólk að horfa á mig og benda.
Ég hafði farið út í rifnum joggingbuxum og ég var ekkert sérstaklega vel til höfð og mér fannst allir þarna vera dæma mig. Ég rauk út úr búðinni og var reið. Ég gat ekki einu sinni farið í uppáhalds búðina mína án þess að fólk væri að dæma mig,“ sagði Kim sem endaði á að henda gullverðlaunum sínum í ruslið.
„Stuttu síðar þá ökklabrotnaði ég í keppni og það gerði útslagið. Það var þá sem ég fann að ég var komin á botninn, bæði andlega og líkamlega,“ bætti Kim við en hún hefur nú náð sér góðri og verður í eldlínunni í hálfpípukeppni Ólympíuleikanna í Peking sem hefjast á morgun þar sem hún ætlar að bjóða áhorfendum upp á brellur sem ekki hafa sést áður í snjóbrettaheiminum.