Sveit Íslands á Vetrarólympíuleikunum var númer 35 í röðinni í dag þegar keppendur á leikunum gengu inn á leikvanginn glæsilega í Peking við setningarathöfn leikanna. Hún hófst kl. 12 á hádegi að íslenskum tíma en klukkan 20 að kvöld að staðartíma.
Fánaberarnir Sturla Snær Snorrason og Kristrún Guðnadóttir voru fremst í flokki og á eftir þeim komu Snorri Einarsson, Isak Stianson Pedersen og Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir en þessi fimm keppa fyrir Íslands hönd á leikunum. Þjálfarar og fararstjórar gengu með og því var það alls tíu manna hópur Íslendinga sem gekk inn á leikvanginn.
Kínverska stafrófið er frábrugðið því íslenska og þannig voru Malta og Madagaskar tvær af fyrstu þjóðunum sem gengu inn á leikvanginn, á eftir Grikkjum sem jafnan eru fyrstir, en Ísland kom næst á eftir Ungverjalandi. Alls tekur 91 þjóð þátt í Vetrarólympíuleikjunum að þessu sinni.