Tvær þær fljótustu mætast tvisvar í Laugardalshöll

Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ásamt Helgu Margréti …
Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ásamt Helgu Margréti Haraldsdóttur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Tvær fljótustu konur landsins, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth, mætast tvisvar í Laugardalshöllinni á sunnudaginn.

Þær eru á meðal keppenda í bæði 60 metra hlaupi og 200 metra hlaupi kvenna á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna sem hefst í Höllinni klukkan 12.50 á  sunnudag og lýkur kl. 14.45.

Klukkan 13.35 mætast þær í 60 metra hlaupinu og svo aftur í lokagrein mótsins, 200 metra hlaupinu, klukkan 14.45. Finnski spretthlauparinn Milja Thureson er einnig á meðal keppenda í báðum greinum en hún hefur náð svipuðum tímum og þær Guðbjörg og Tiana þannig að útlit er fyrir enn harðari keppni.

Guðbjörg setti Íslandsmet í 60 metra hlaupi innanhúss á móti í Laugardalshöllinni þann 15. janúar þegar hún hljóp vegalengdina á 7,43 sekúndum. Tiana Ósk var á hælum hennar og náði líka sínum besta árangri sem er 7,45 sekúndur og næstbesti árangur Íslendings í greininni. Thureson hefur best hlaupið á 7,42 sekúndum fyrir þremur árum.

Guðbjörg er hinsvegar enn að berjast  við að slá 18 ára gamalt Íslandsmet Silju Úlfarsdóttur í 200 metra hlaupinu innanhúss en það er 23,79 sekúndur og hefur staðið frá árinu 2004. Besti árangur Guðbjargar er 23,98 sekúndur en hún náði þeim tíma á Reykjavíkurleikunum fyrir tveimur árum. Tiana Ósk á best 24,08 sekúndur sem er einnig frá árinu 2020 og hún er fjórða best í greininni frá upphafi, á eftir Hrafnhild Eir Hermóðsdóttur. Besti tími Thureson er 24,02 sekúndur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert