„Ég er sú eina sem hef keppt með þetta stökk á móti,“ sagði Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona og Evrópumeistari, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Kolbrún Þöll, sem er 22 ára gömul, hafnaði í öðru sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins en hún varð Evrópumeistari með íslenska kvennalandsliðinu í hópfimleikum í Guimaraes í Portúgal í desember á síðasta ári.
Á mótinu framkvæmdi hún stökk sem engin önnur kona hefur keppt með á Alþjóðlegu móti en þar fer hún í tvöfalt heljarstökk með beinan líkama og snýr sér í þrjár og hálfa skrúfu í stökkinu fræga.
„Ég gerði það fyrst árið 2016 og eins gaman og að það er að vera sú eina sem hefur gert þetta þá vill maður líka hækka rána og ýta öðrum stelpum áfram í að gera slíkt hið sama,“ sagði Kolbrún.
„Stelpur eru að einhverju leyti í sama getuflokki ef svo má segja og það er gaman að geta sýnt öðrum að þetta er hægt,“ sagð Kolbrún Þöll meðal annars.
Viðtalið við Kolbrúnu Þöll í heild sinni má nálgast með því að smella hér.