Fann fyrir öfundsýki á yngri árum

„Þetta er hópíþrótt og það styrkir liðið þegar einstaklingarnir eru góðir,“ sagði Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona og Evrópumeistari, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Kolbrún Þöll, sem er 22 ára gömul, byrjaði að æfa fimleika þegar hún var fimm ára gömul en hún hefur alla tíð skarað fram úr í íþróttinni.

Hún varð Evrópumeistari með kvennalandsliði Íslands í hópfimleikum í Guimaraes í Portúgal í desember á síðasta ári og þá hafnaði hún í öðru sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins 2021.

„Þegar ég var tólf til fjórtán ára þá fann ég kannski fyrir smá öfundsýki í minn garð en svo þroskast maður bara upp úr því,“ sagði Kolbrún.

„Það var mikill grátur stundum sem fylgdi því að vera afreksíþróttakona og allt það en mamma og pabbi voru dugleg að stappa í mig stálinu og héldu vel utan um mig,“ sagði Kolbrún Þöll.

Viðtalið við Kolbrúnu Þöll í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert