„Ég var langyngst í liðinu þegar ég fór á mitt fyrsta Evrópumót árið 2012,“ sagði Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona og Evrópumeistari, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Kolbrún Þöll, sem er 22 ára gömul, var 12 ára þegar hún fór á sitt fyrsta Evrópumót í hópfimleikum en hún var í lykilhlutverki í liði Íslands sem varð Evrópumeistari í fyrsta sinn í unglingaflokki.
Síðan þá hefur hún tekið þátt í fjórum Evrópumótum fyrir Íslands hönd og í öll skiptin verið valin í úrvalslið mótsins en hún varð Evrópumeistari í fyrsta sinn í fullorðinsflokki með kvennaliði Íslands á nýliðinu Evrópumóti í Guimaraes í Portúgal í desember á síðasta ári.
„Ég var það ung, þegar ég fór á mitt fyrsta mót, að ég áttaði mig ekki almennilega á því hversu stórt þetta var,“ sagði Kolbrún Þöll.
„Ég man lítið eftir undirbúningnum fyrir fyrsta mótið þó ég muni ágætlega eftir mótinu sjálfu. Ég man það hins vegar að ég kom oft grátandi heim eftir æfingar því þetta tók svo á,“ sagði Kolbrún Þöll.
Viðtalið við Kolbrúnu Þöll í heild sinni má nálgast með því að smella hér.