HK lagði Íslandsmeistarana

HK-ingar fagna í gærkvöldi.
HK-ingar fagna í gærkvöldi. Ljósmynd/A&R Photos

Í gærkvöldi tók HK á móti Hamri frá Hveragerði í úrvalsdeild karla í blaki í Digranesi. Um toppslag var að ræða þar sem HK var með þriggja stiga forystu á Hamar fyrir leik kvöldsins en Hamar á þrjá leiki til góða á HK.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel og unnu fyrstu hrinuna 25:21 en Hamar byrjaði svo af krafti í hrinu tvö og unnu hana 21:25. Þriðja hrinan var hreint út sagt ótrúleg.

Í stöðunni 25:25 komst Hamar yfir, 25:26, og þurftu eitt stig til viðbótar til þess að vinna hrinuna en þá tók HK við sér og skoraði næstu tvö stig og staðan skyndilega orðin 27:26 fyrir HK. Var það ekki fyrr en í stöðunni 30:28 sem HK sigraði þessa æsispennandi hrinu.

Í fjórðu hrinu byrjaði HK virkilega vel og komst í stöðuna 15:7 og Hamar einfaldlega ekki búið að jafna sig á tapinu í þriðju hrinunni. Hrinunni lauk 25:16 fyrir HK sem vann þar með leikinn 3:1.

Sigurgöngu Íslandsmeistara Hamars sem hófst á síðasta tímabili þegar þeir fóru upp í úrvalsdeildina er þar með lokið.

Stigahæstur í liði HK var Hristiyan Dimitrov með 26 stig og á eftir honum var Valens Torfi Ingimundarson með 13 stig.

Í liði Hamars var Tomek Leik stigahæstur með 14 stig og á eftir honum var Hafsteinn Valdimarsson með 13 stig.

Næsti leikur hjá HK er fyrir norðan á móti KA föstudaginn 18. febrúar og laugardaginn 19 febrúar.

Hamar spilar næst á móti Aftureldingu í Mosfellsbæ miðvikudaginn 9. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert