Ludwig vann gullið

Johannes Ludwig sigurreifur í dag.
Johannes Ludwig sigurreifur í dag. AFP

Þjóðverjinn Johannes Ludwig kom fyrstur í mark í úrslitunum í sleðakeppni karla á Vetrarólympíuleikunum í Peking í dag og tryggði sér þannig ólympíugull.

Ludwig var í fyrsta sæti að loknum þremur umferðum og var með 0,113 sekúndna forskot á Austurríkismanninn Wolfgang Kindl áður en fjórða og síðasta umferðin hófst.

Hann hélt ró sinni í lokaumferðinni þrátt fyrir smávægileg mistök í byrjun hennar og renndi sér í mark á 3:48,735 mínútum.

Ludwig er ríkjandi heimsmeistari í sleðakeppni karla og vann til bronsverðlauna í greininni á leikunum í Pyeonchang í Suður-Kóreu árið 2018.

Kindl hafnaði í öðru sæti og nældi í silfurverðlaun á 3:48,895 mínútum og Dominik Fischnaller frá Ítalíu náði í brons þegar hann renndi sér í mark á 3:49,686 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert