Alvin Kamara, hlaupari New Orleans Saints í bandarísku NFL-deildinni í amerískum fótbolta, var handtekinn í nótt eftir stjörnuleik deildarinnar sem fram fór í Nevada í Las Vegas.
Það er CNN sem greinir frá þessu. Kamara, sem er 26 ára gamall, er einn allra besti hlaupari deildarinnar en hann er sakaður um líkamsárás á næturklúbbi í Las Vegas, aðfaranótt sunnudags.
Lögregluyfirvöld í Las Vegas biðu fyrir utan Allegiant-völlinn í Nevada á meðan stjörnuleikurinn fór fram og handtóku svo leikmanninn þegar leiknum lauk.
Hann var látinn laus gegn 5.000 dollara tryggingu, því sem um nemur 630.000 íslenskra króna, en þarf að mæta fyrir dómara í Nevada síðar í dag.