Hólmfríður úr leik í stórsvigi

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir náði ekki að klára fyrri ferð sína …
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir náði ekki að klára fyrri ferð sína í stórsvigi kvenna. Ljósmynd/SKÍ

Skíðakonan Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir er úr leik í keppni í stórsvigi á Vetrarólympíuleikunum í Peking.

Hólmfríður keyrði út úr brautinni í fyrri ferð sinni í nótt, í efri hluta brautarinnar, en margir keppendur lentu í vandræðum í þessum hluta brautarinnar.

Heims- og ólympíumeistarinn Mikaela Shiffrin frá Bandaríkjunum var ein af þeim keppendum sem fór út úr brautinni á svipuðum stað og er því einnig úr leik.

Hólmfríður var með rásnúmer 61 í stórsvigskeppninni en Aicher Emma frá Þýskalandi leiðir eftir fyrri ferðina á tímanum 1:01,52 mínútum.

Hólmfríður hefur ekki lokið leik í Peking því hún keppir einnig í svigi og risasvigi á leikunum. Keppni í svigi fer fram 9. febrúar og keppni í risasvigi 11. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert