Sigldi sigrinum þægilega heim

Sara Hector kom fyrst í mark í stórsviginu.
Sara Hector kom fyrst í mark í stórsviginu. AFP

Sara Hector frá Svíþjóð kom fyrst í mark í stórsvigskeppni kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Peking í morgun.

Hector var efst eftir fyrri ferð sína þar sem hún skíðaði á tímanum 57,56 sekúndum. Hún fór því síðust af stað í seinni ferðinni og þar kom hún í mark á tímanum 58,13 sekúndum og samtals á tímanum 1:55,69 mínútum.

Hector var með nokkuð vænlegt forskot fyrir seinni ferðina eða 0,42 hundraðshluta úr sekúndu og hún gat því leyft sér að skíða af nokkurri yfirvegun í síðari ferðinni.

Að endingu var hún 0,28 hundraðshlutum úr sekúndu á undan hinni ítölsku Federicu Brignone. Lara Gut-Behrami frá Sviss varð þriðja á tímanum 1:56,41 mínúta.

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir var skráð til leiks í sömu keppni en tókst ekki að ljúka fyrri ferðinni og féll því úr leik.

Sömu sögu er að segja um fyrrverandi Ólympíumeistarann Mikaelu Shiffrin sem féll einnig úr leik í fyrri ferðinni en hún fagnaði sigri í greininni í Pyeonchang í Suður-Kóreu árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert