Skautahlauparinn Ireen Wüst frá Hollandi vann sín sjöttu gullverðlaun á ferlinum á Vetrarólympíuleikunum í Peking í morgun þegar hún kom fyrst í mark í 1.500 metra skautahlaupi kvenna á nýju Ólympíumeti.
Wüst kom í mark á tímanum 1:53,28 mínútum og var 0,44 hundraðshlutum úr sekúndu á undan hinni japönsku Miho Takagi. Antoinette de Jong frá Hollandi varð þriðja á tímanum 1:54,82 mínútum.
Árangur Wüst er sögulegur en hún er fyrsti keppandinn í sögu Ólympíuleikanna, sumar og vetrar, til þess að vinna til gullverðlauna á fimm mismunandi leikum í einstaklingskeppni.
Hún fékk gull í 3.000 metra skautahlaupi í Tórínó árið 2006, gull í 1.500 metra skautahlaupi í Vancouver 2010, gull í 3.000 metra skautahlaupi og liðakeppni í Sochi 2014 og gull í 1.500 metra skautahlaupi í PyeongChang 2018.
Wüst keppir einnig í 1.000 metra skautahlaupi á leikunum í ár en hún hafði gefið það út fyrir leikana í ár að þetta yrði hennar síðustu Ólympíuleikar.
Wüst, sem er 35 ára gömul, er jafnframt elski keppandinn í skautahlaupi til þess að vinna til gullverðlana á Ólympíuleikum og einnig yngsti Hollendingurinn til þess að vinna til gullverðlauna en hún var 19 ára þegar hún fagnaði sigri í Tórínó.