Arianna Fontana frá Ítalíu fagnaði sigri í 500 metra skautahlaupi kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Peking í dag en hún fór einnig með sigur af hólmi í greininni á leikunum í PyeonChang fyrir fjórum árum síðan.
Fantana kom í mark á tímanum 42,488 sekúndum en Suzanne Schulting varð önnur á tímanum 42,559 sekúndum. Kim Boutin frá Kanada hafnaði í þriðja sæti á tímanum 42,724 sekúndum.
Þetta voru tíundu verðlaun Fontana á vetrarólympíuleikum í skautahlaupi og er hún þar með orðin sigursælasta skautakona í sögu vetrarólympíuleikanna í styttri vegalengdum.
Hún vann sín fyrstu verðlaun í Tórínó á Ítalíu árið 2006, þá 15 ára gömul og varð um leið yngsti Ítalinn til þess að vinna til verðlauna á vetrarólympíuleikum.