Norðmenn eru ósáttir við frammistöðu skíðagöngufólksins síns á vetrarólympíuleikunum í Peking en gátu þó glaðst í dag þegar Johannes Klæbo sigraði í sprettgöngunni í karlaflokki.
Klæbo bjargaði deginum fyrir Norðmenn sem voru súrir yfir því að eiga engan keppanda í sex manna úrslitunum í kvennaflokki í sprettgöngunni, og Klæbo komst einn þeirra í úrslitin í karlaflokki.
Hann sigraði á 2:58,06 mínútum en Federico Pellegrino frá Ítalíu varð annar á 2:58,32 og Alexander Terentev frá Rússlandi varð þriðji á 2:59,37 mínútum.
Isak Stianson Pedersen var á meðal keppenda í greininni og hafnaði í 78. sæti í undanrásunum í morgun.