Isak Stianson Pedersen varð rétt í þessu fjórði Íslendingurinn til að keppa á vetrarólympíuleikunum í Peking þegar hann lauk keppni í sprettgöngu karla.
Isak var með rásnúmer 61 af 92 keppendum í greininni en hann keppti í henni í annað sinn á vetrarólympíuleikum því Isak varð í 55. sæti í sprettgöngunni í Pyeongchang fyrir fjórum árum.
Isak var í 53. sæti þegar hann hafði farið hálfa leiðina og hafði þá farið upp um átta sæti. Hann gaf eftir á seinni hlutanum og var í 59. sæti þegar hann kom í mark á 3:11,95 mínútum. Isak endaði að lokum í 78. sæti þegar allir höfðu skilað sér í mark.
Lucas Chanavat frá Frakklandi náði besta tímanum, 2:45,03 mínútur, og síðan kom Sergeij Ustiugov frá Rússlandi á 2:46,51 mínútum en fyrstu 30 komust áfram í undanúrslitin.