Benjamin Karl frá Austurríki og Ester Ledecka frá Tékklandi fengu gullverðlaunin í flokkum karla og kvenna í samhliða snjóbrettasvigi á vetrarólympíuleikunum í Peking í dag.
Ledecka endurtók leikinn frá því í Pyeongchang árið 2018 og sigraði á öðrum leikunum í röð. Hún mætti Danielu Ulbing frá Austurríki í úrslitaviðureigninni og hafði betur. Bronsið hlaut Gloria Kotnik frá Slóveníu.
Benjamin Karl, sem er 36 ára gamall og sigursælasti keppandinn í þessari grein á heimsvísu, varð Ólympíumeistari í fyrsta skipti með því að sigra Tim Mastnak frá Slóveníu í úrslitaviðureigninni í karlaflokki. Bronsið hlaut Victor Wild frá Rússlandi.