Hollendingar fögnuðu tvöföldum sigri í 1.500 metra skautahlaupi karla á vetrarólympíuleikunum í Peking í dag.
Kjeld Nuis sigraði á nýju Ólympíumeti, 1:43,21 mínútu, og Thomas Krol varð annar á 1:43,55 mínútu. Bronsið hlaut síðan Kim Minseok frá Suður-Kóreu á tímanum 1:44,24 mínúta.
Ólympíumetið sem var orðið 20 ára gamalt féll reyndar tvívegis í hlaupinu því fyrst var það Krol sem sló það og síðan Nuis.
Kjeld Nuis er 32 ára gamall og á nú þrenn ólympíugullverðlaun en hann sigraði bæði í 1.000 og 1.500 metra skautahlaupinu í Pyeongchang árið 2018.
Þetta er í fyrsta sinn sem skautahlaupari vinnur 1.500 metrana á tvennum leikum í röð, frá því Eric Heiden lék þann leik í Lake Placid og Sarajevo árin 1980 og 1984.