Natalie Geisenberger frá Þýskalandi fagnaði sigri í sleðakeppni kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Peking í dag og eru þetta þriðju leikarnir í röð sem hún fagnar sigri í greininni.
Keppendur renndu sér fjórar ferðir en samanlagður tími Geisenberger var 3:53,454 mínútur. Landa hennar Anna Berreiter varð önnur, 0,493 sekúndum á eftir Geisenberger og Tatyana Ivanova frá rússnesku ólympíunefndinni varð þriðja á tímanum 3:54,507 mínútum.
Geisenberger, sem er 34 ára gömul, fagnaði einnig sigri í greininni í Sochi í Rússlandi árið 2014 og í PyeonChang í Suður-Kóreu árið 2018.
Þetta voru hennar fimmtu gullverðlaun á vetrarólympíuleikum en hún hefur einnig fagnað sigri í blandaðri liðakeppni á síðustu tveimur leikum.